Einvígi Keflavíkur og Tindastóls hefst í kvöld kl. 19:15 í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Keflvíkingar luku keppni í 2. sæti deildarinnar en Tindastólsmenn áttu flottan lokasprett og tryggðu sér 7. sætið. Fyrirfram eru Keflvíkingar álitnir sterkari aðilinn og vissulega mun sjóaðri þegar hingað er komið á leiktíðinni en nokkurn tíman Stólarnir.
Deildarviðureignir liðanna í vetur:
19. nóvember 2009: Tindastóll 69-88 Keflavík
Miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson lék lausum hala í Síkinu fyrir norðan og setti 25 stig á Stólana ásamt því að taka 15 fráköst í leiknum fyrir Keflavík. Svavar Atli Birgisson var stigahæstur heimamanna með 22 stig og 10 fráköst. Hér var Rashon Clark Bandaríkjamaður í liði Keflavíkur og Amani Bin Danish hjá Stólunum sem kom frá Grindavík.
26. febrúar 2010: Keflavík 106-73 Tindastóll
Ósigurinn stækkaði heldur þegar Tindastóll mætti í Toyota-höllina þar sem Keflavík rúllaði gestunum upp í fjórða leikhluta og unnu þær 10 mínútur 36-19. Draelon Burns og Uruele Igbavboa voru hér komnir til liðs við Keflavík og Cedric Isom og Donatas Visockis komnir í raðir Stólanna. Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur hjá Keflavík í leiknum með 29 stig en Cedric Isom gerði 30 stig í liði Stólanna.
Keflavík vann því tvo örugga sigra á Tindastól í deildarkeppninni og spurning hvort sá þriðji komi í kvöld eða Stólarnir haldi áfram á góðu róli eins og þeir lokuðu deildarkeppninni.
Líkleg byrjunarlið og match up í kvöld og í seríunni:
(Karfan.is tekur fram að eftirfarandi eru aðeins hugleiðingar og fjarri því heilagur sannleikur)
Keflavík:
Hörður Axel Vilhjálmsson
Draelon Burns
Gunnar Einarsson
Uruele Igbavboa
Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Tindastóll:
Cedric Isom
Friðrik Hreinsson
Svavar Atli Birgisson
Helgi Rafn Viggósson
Donatas Visockis
Dugnaðarforkurinn Gunnar Einarsson mun láta reyna á nafnbótina sem hann hlaut á dögunum en hann verður örugglega ekki sá eini sem fær það vandasama hlutverk að gæta Cedric Isom. Ætli Guðjón Skúlason rúlli ekki Gunnari, Sverri Þór og Herði Axel á Isom í von um að láta reyna á kappann. Isom er frábær leikmaður og það verður ekki annað sagt en að Keflvíkingar geri vel ef þeir haldi honum undir 20 stigum.
Að sama skapi fá þeir Donatas og Helgi Rafn ekki öfundsverð hlutverk í teignum og ekki ósennilegt að Svavar rúlli inn á blokkina til að hjálpa þeim að hafa gætur á Uruele og Sigurði sem eru stórhættulegt par í teignum, því fengu KR-ingar að kynnast á sínum eigin heimavelli á dögunum. Donatas er fremur varnarsinnaður leikmaður og verður líklega á Sigurði á meðan Helgi eða Svavar gæta Uruele sem líður vel er hann snýr að körfunni og tekur stóru mennina á.
Draelon Burns og Hörður Axel verða örugglega grimmir í Keflavíkursóknunum en Hörður hefur átt flott tímabil með Keflavík og Burns hefur fallið vel inn í leik Keflavíkur síðan hann tók við stöðu Rashon Clark sem var látinn fara. Báðir eiga þeir það til að hrynja í þriggja stiga gírinn en þetta eru líka bakverðir með öflug drive.
Sterkir leikmenn koma inn af bekkjum beggja liða og þar ber helst að nefna Jón N. Hafsteinsson og Sverri Þór Sverrisson í liði Keflavíkur en báðir eru þeir magnaðir varnarmenn þó svo þeim séu stundum mislagðar hendur í sókninni. Þröstur Leó Jóhannsson kemur líka af tréverkinu hjá Keflavík en þetta er stemmningsleikmaður sem er illviðráðanlegur þegar sá gállinn er á honum. Axel Kárason kemur af bekk Stólanna og getur leyst af í stöður 2-3 fyrir Friðrik og Svavar. Axel hefur haft fremur hægt um sig í vetur en er þekkt stærð og mun örugglega mæta klár í slaginn.



