Hólmarar mæta í Röstina í Grindavík í kvöld þegar einvígi Grindavíkur og Snæfells hefst í 8-liða úrslitum Iceland Exrpess deildar karla. Þetta eru bikarliðin 2010 þar sem Snæfellingar höfðu betur í Höllinni og eru ríkjandi Subwaybikarmeistarar. Skemmtileg staðreynd að eftir bikarleikinn urðu Grindvíkingar fyrstir til að brjóta á bak aftur sjö leikja heimasigurgöngu Hólmara. Þurftu varla neina hárþurrkumeðferð frá Friðriki þjálfara til að gíra sig upp í þann leik! Það er allt hægt í þessu einvígi og synd að annað liðið sé farið í sumar frí eftir viku.
Deildarviðureignir liðanna í vetur:
29. nóvember 2009: Grindavík 95-94 Snæfell
Mögnuð rimma sem varð að framlengja þar sem Grindvíkingar höfðu betur. Páll Axel Vilbergsson gerði 21 stig í liði Grindavíkur en hjá Snæfell var Sigurður Þorvaldsson með 24 stig. Í þessum fyrri leik liðanna voru þau bæði komin með endanlega mynd ef frá er talinn Berkis í liði Snæfells. Flake var kominn í Grindavík og Burton var mættur í rautt.
12. mars 2010: Snæfell 88-98 Grindavík
Grindvíkingar bundu enda á sjö leikja heimasigurgöngu Snæfells og það án Þorleifs Ólafssonar. Páll Axel var aftur stigahæstur hjá Grindavík og nú með 24 stig en Sean Burton gerði 24 stig fyrir Snæfell. Grindavík vann því báða deildarleikina en Snæfell vann bikarúrslitin og eru liðin því að mætast í fyrsta sinn síðan Grindavík hafði sigur í þessum leik þann 12. mars í Stykkishólmi.
Líkleg byrjunarlið og match up í kvöld og í seríunni:
(Karfan.is tekur fram að eftirfarandi eru aðeins hugleiðingar og fjarri því heilagur sannleikur)
Grindavík:
Arnar Freyr Jónsson
Brenton Joe Birmingham
Páll Axel Vilbergsson
Ómar Örn Sævarsson
Darrell Flake
Snæfell:
Sean Burton
Emil Þór Jóhannsson
Sigurður Á. Þorvaldsson
Jón Ólafur Jónsson
Hlynur Bæringsson

Eins og flestum ætti að vera kunnugt hafa Grindvíkingar glímt við meiðsli undanfarið og í síðustu leikjum hefur Þorleifur Ólafsson verið fjarverandi en þar á ferðinni er einn af sterkari leikmönnum deildarinnar. Hann verður hugsanlega inni í byrjunarliðinu ef hann er heill, sjáum til.
Miðað við hvernig við setjum þetta upp þá mætast Arnar Freyr og Sean Burton í leikstjórnendastöðunum. Burton verður á Arnari en óvíst er hvort Friðrik Ragnarsson þjálfari hafi Arnar í því að dekka Burton. Hann gæti jafnvel farið í það að setja stærri mann eins og Brenton á Burton til að loka betur á þriggja stiga skotin en þau koma á færiböndum ef Burton er höndin heit. Arnar Freyr gæti þá lent í því að dekka Emil Þór sem hefur vaxið gríðarlega í vetur í höndum Inga Þórs en Emil er duglegur og kraftmikill leikmaður sem iðulega tekur góðar rispur í leikjum og skorar af harðfylgi, óhræddur við að ráðast á körfuna. Hér gæti Arnar Freyr lent í basli.
Berserkurinn Hlynur Bæringsson mun vafalítið opinbera veikleika Grindavíkur í teignum. Ekki er ósennilegt að Hlynur frákasti meira í leik kvöldsins, og jafnvel í seríunni, en þeir Darrell Flake og Ómar Sævarsson til samans. Verði Flake og Ómari að góðu í þessarri rimmu en þeir þurfa heldur betur að slípa vígtennurnar ef þeir ætla ekki að fá fótsport í stærðinni 48-49 á bakið á sér.
Snæfellingar setja Sigurð Á. Þorvaldsson til höfuðs Páli Axeli. Páll hefur sætt gagnrýni víða undanfarið fyrir að láta ekki nægilega til sín taka í stóru leikjunum. Furðuleg gagnrýni þar sem hann var t.d. stigahæstur í báðum deildarleikjunum gegn Snæfell, vart hægt að kalla þá leiki litlu leikina. Páll er ekki mikið fyrir að líta um öxl svo Sigurður er ekki að fara að glíma við mann í kvöld og á næstu dögum sem haldinn er fortíðarcomplexum, fjarri lagi.
Grindvíkingar þurfa að einbeita sér að Jóni Ólafi þar sem Ómar Sævarsson verður líkast til á honum eða Sigurði Þorvaldssyni. Ef Ómar verður á Jóni þá stilla Snæfellingar væntanlega upp 4-1 með Hlyn einan í teignum og Jón fyrir utan. Draga þannig Ómar út og gefa Jóni færi á þriggja stiga skotunum sínum en Hólmarar kalla hann stundum svartholið og vísa þar í skotfjölda leikmannsins, skemmtileg nafnbót en miður skemmtileg fyrir Ómar ef Jón ætlar að detta í gírinn. Að sama skapi verður Hlynur með Flake í vörninni og þá þurfa Hólmarar að passa upp á Ómar sem er betri leikmaður í teignum heldur en Jón og Sigurður.
Stóra spurningamerkið er svo Brenton Birmingham. Hvernig verður kallinn stemmdur? Brenton kann þetta allt saman en hefur haft nokkuð hægt um sig á leiktíðinni, hann hefur verið að glíma við meiðsli en leikina sem hann hefur spilað þá hafa þau ekki dottið mörg stigin og eitthvað virðist hafa hægt á kappanum. Um leið og þetta er ritað minnist undirritaður troðslu hjá Brenton í fyrra í úrslitaseríunni, hvorki meira né minna en yfir Fannar Ólafsson landsliðsmiðherja. Að afskrifa Brenton er álíka gáfulegt og að reyna að hlusta á maur pissa á bómul.
Bekkur Snæfells:
Berkis og Pálmi vega þyngst á bekk Snæfells en báðir þessir leikmenn geta dúndrað niður þristum eins og enginn sé morgundagurinn. Berkis hefur líka sýnt að það eru töggur í honum, lendir reglulega í klafsi og gefur ekkert eftir. Pálmi hefur næmt sendingaauga og mun leysa Burton af í leikstjórnendastöðunni. Sveinn Davíðsson fær einnig að láta ljós sitt skína í liði Snæfells en hann hefur átt nokkrar flottar rispur í vetur.
Bekkur Grindavíkur:
Bardagabræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir eru miklir stemmningsleikmenn og Ólafur er nú að stimpla sig rækilega inn í úrvalsdeildina. Ólafur er þekktur fyrir mikla háloftafimleika en hefur slípað sig verulega í vörninni og reynist mörgum illur viðureignar með sinn langa faðm. Þorleifur er oftar en ekki settur til höfuðs bestu leikmönnum andstæðinganna og með hann í góðu formi eru Grindvíkingar til alls líklegir. Guðlaugur Eyjólfsson mun svo kvelja Snæfellinga þegar þeir gleyma honum fyrir utan þriggja stiga línuna. Hólmarar munu gera þau mistök, það gera það öll lið!



