7:30
{mosimage}
Undanfarið hefur borið á því að félögin í landinu hafa verið að birta myndbönd úr leikjum sínum á heimasíðum sínum þar sem dregin eru fram atvik þar sem félögum finnst brotið á rétti sínum. Það er vissulega gaman að því að félögin taki leiki sína og skoði þá á myndbandi eftir á og vinni úr þeim brot til að sýna fólki sem ekki komst á staðinn en spurningin er hver hagurinn er af því að vera að birta svona myndbönd sem draga upp neikvæða mynd af íþróttinni. Nær væri að félögin notuðu tímann í að klippa til flott tilþrif úr leikjunum til að auka áhugann á leiknum á jákvæðan hátt.
Karfan.is hefur tekið þá ákvörðun að vera ekki að eltast við þessa tegund af myndböndum og birta þau því ekki á vef sínum enda karfan.is stofnuð með það að markmiði að auka jákvæða umfjöllun um okkar fögru íþrótt. Vissulega geta komið upp atviki sem rétt er að fjalla um en þau myndbönd og myndir sem dregnar hafa verið fram að undanförnu hafa sýnt atvik þar sem vissulega hafa orðið mistök en spurningin er hver tilgangurinn er að draga fram ein mistök fram yfir önnur.
Með þessum neikvæðu myndböndum er verið að draga stundarhagsmuni ákveðinna félaga fram yfir heildarhagsmuni íþróttarinnar. Jákvæð umræða er mikið uppbyggilegri til lengdar en neikvæð umræða sem drepur innanfrá.Karfan.is mun því ekki lengur eltast við þessi myndbrot heldur bíðum við spenntir eftir að félögin klippi saman myndbrot af tilþrifum leikmanna sinna.



