spot_img
HomeFréttirKarfan.is fimm ára í dag

Karfan.is fimm ára í dag

 
Í dag eru fimm ár liðin frá því að Karfan.is fór í loftið eða þann 14. desember 2005. Allar götur síðan þá hefur vefsíðan vaxið og dafnað og skipta nú daglegir gestir síðunnar þúsundum. Að tilstuðlan körfuknattleiksáhugamanna vítt og breitt um landið hefur Karfan.is fært fréttir af íþróttinni jafn óðar og þær gerast. Á þessum afmælisdegi vill ritstjórn vefsíðunnar koma á framfæri innilegu þakklæti til handa öllum þeim sem hafa lagt síðunni lið og sett hana fremsta meðal jafningja þegar kemur að því að fjalla um körfuknattleiksíþróttina hér heimafyrir.
 
Ljósmyndirnar skipta orðið tugum þúsunda, viðtölin eru ófá og umfjallanirnar ekki færri, almennar fréttir og videoviðtöl upp í framleiðslu þátta og svo minni myndbrota eru það sem við höfum tekið okkur fyrir hendur hér á Karfan.is. Greint hefur verið frá íþróttinni aðallega hér innanlands en við höfum þó komist af skerinu endrum og sinnum og m.a. gert Norðurlandamóti unglinga góð skil síðastliðin þrjú ár. Við höfum staðið í beinum netútsendingum frá körfuboltaleikjum með Eggert Baldvinsson í broddi fylkingar og félögin hafa tekið upp keflin og eru nú farin sjálf sum hver að sýna frá heimaleikjum sínum í beinni netútsendingu. Sumir lengur en aðrir en allir snillingar hver um sig.
 
Þessi fimm ár hafa verið mögnuð, úrslitakeppnirnar undanfarin ár hafa verið hreinn rjómi og íþróttin tekur stórstígum framförum, þjálfararnir verða betri og betri sem og leikmennirnir, sambandið stökk inn í framtíðina með glæsilegu tölfræðikerfi (Basket Hotel) og hver snillingurinn á fætur öðrum sprettur fram með góða hugmynd og nýjasta og besta dæmið þar er Leikbrot.is. Umboð hefur nú skotið upp kollinum sem höndlar aðeins með körfuboltaskó undir merkjum PEAK og meistararnir á NBA Ísland hrinda út gælunöfnum á íslenska leikmenn og ljá þessu enn skemmtilegri blæ.
 
Áður en glassúrhjúpurinn af ofanskrifuðu kæfir einhvern þá til að gera langa sögu stutta hefur það verið með afbrigðum skemmtilegt að fylgjast náið með okkar göfugu íþrótt síðastliðin fimm ár og sjá hversu mörg og stór framfaraskrefin hafa orðið. Eflaust eru þau fleiri handan við hornið og þeir sem áhuga hafa að taka þátt er velkomið að spreyta sig í byrjunarliði Karfan.is – okkar byrjunarlið er miklu stærri en 5-manna! Sendið okkur línu á [email protected] og komið í stærsta körfuboltalið landsins.
 
Við þökkum kærlega fyrir liðsinnið og lesturinn síðastliðin fimm ár og vonumst til að sjá ykkur sem flest á vellinum.
 
F.h. ritstjórnar Karfan.is
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is
Fréttir
- Auglýsing -