02:49
{mosimage}
Í kvöld tóku heimamenn í Hamri á móti bikarmeisturum ÍR í 10. umferð Iceland Express deild karla. Hamarsmenn tefldu fram nýjum leikmanni Roman Moniak frá Úkraínu sem lék áður með ÍR en var sendur heim eftir 3 leiki þar sem hann spilaði langt undir getu, með aðeins 2 stig í 3 leikjum.
Leikurinn fór vel af stað og var mjög gaman að sjá Svavar Pál í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í langan tíma, en í staðinn byrjaði Byrd á bekknum. Leikurinn var mjög jafn fyrstu mínúturnar en þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af fyrsta fjórðung var staðan 16-16 og Roman Moniak nýkominn inná í fyrsta sinn. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 8 af 9 stigum Hamars það sem eftir lifði leikhlutans (5/6 vítum 1/1 þriggja 0/0 tveggja) og heimamenn leiddu 25-20 eftir 1. fjórðung.
Í öðrum leikhluta voru Hamarsmenn mun sterkari aðilinn en lítið gekk upp í sóknarleik ÍR og skoruðu þeir ekki nema 10 stig í leikhlutanum (3/11 tveggja, 0/4 þriggja, 4/6 víti) meðan heimamenn skoruðu 20 stig sem þeir skiptu nokkuð bróðurlega á milli sín. Staðan því 45-30 í hálfleik og stemningin algjörlega Hamarsmegin sem spiluðu fínan leik, bæði í sókn og vörn.
{mosimage}
Þriðju leikhlutinn var nokkuð jafnari en fyrstu tveir en Hamarsmenn voru þó mun áræðnari og stal Lalli t.d 2 boltum á sömu mínútunni eftir skoraða körfu með "eins-manns-pressu" Staðan 65-47 eftir 3. leikhluta og Hamarsmenn þurftu aðeins að halda haus til að tapa ekki niður forustunni.
Marvin átti 3 góð skot í 3 sóknum í röð og setti niður 8 stig og kom muninum í 25 stig (76-51) þegar rúmar 3 mínútur voru liðnar af 4. leikhluta og 2 góð stig á leiðinni í hús. Þá sýndi ÍR-ingarnir klærnar og skoruðu 22 stig á móti 7 stigum heimamanna og náðu að bjarga ærunni með því að ganga út með ekki stærra tap en 10 stig. 83-73.
Besti maður Hamars í leiknum var Marvin Valdimarsson sem skoraði 16 stig og tók 9 fráköst. Roman átti síðan mjög flotta innkomu, skoraði 19 stig á 19 mínútum, og tók 6 fráköst. Lárus skoraði 12 stig og gaf 8 stoðsendingar, Bojan 11 stig og 6 fráköst, Byrd skoraði 9 stig og tók 6 fráköst í seinni hálfleik (18), en skoraði 0 stig og tók ekkert frákast í fyrri hálfleik (13 mín). Roni skoraði 8 stig og gaf 8 stoðsendingar, Svavar 5 stig, og Viðar 3.
{mosimage}
Hjá ÍR var Nate Brown atkvæðamestur með 20 stig og 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Tahirou Sani skoraði einnig 20 stig og tók 6 fráköst. Sveinbjörn skoraði 11, Steinar 7, Ólafur J. Sigurðsson 6 stig, Þorsteinn 5 stig og Ómar 4 stig.
Heilt yfir var Hamarsliðið mjög gott og lofaði þessi leikur góðu fyrir framhaldið, því baráttan og stemningin var í lagi í fyrsta skipti í langan tíma. Einnig munaði mikið um nýtinguna og þá aðallega þriggjastiga, en Hamar skoraði úr 9 af 21 skoti (43%) en ÍR aðeins úr 2 af 16 (12,5%).
Texti: Sævar Logi Ólafsson
Myndir: Hamarsport.is
{mosimage}
(Roman Moniak lék sinn fyrsa leik fyrir Hamar í kvöld)



