Ef þú kemst fram hjá Guðrúnu Gróu og Margréti Köru þá áttu eftir Unni Töru og Signýju. Ekki draumastaða sóknarmanns enda eru KR konur á toppnum, ósigraðar, og í kvöld skelltu Vesturbæingar gestum sínum frá Grindavík 81-56. Margrét Kara Sturludóttir átti enn einn stórleikinn og gerði 28 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar í leiknum. Þá stal Kara einnig 7 boltum og fiskaði 10 villur á Grindvíkinga, ekki amalegt dagsverk.
Slíkt hið sama er hægt að segja um Signý Hermannsdóttur með tröllatvennu og næstum þrennu í 17 stigum, 23 fráköstum og 9 vörðum skotum en Signý var líka með 5 stoðsendingar og framlagseinkunnina 38. Mögnu frammistaða hjá landsliðsmiðherjanum sem brá aðeins út af vananum og sýndi bakvörðunum hvernig á að bera sig að við þriggja stiga línuna með því að smella niður tveimur af þremur þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Þá sjaldan að rignir, þá hellirignir!
Signý fór snemma að gera Grindavík lífið leitt í teignum á báðum endum vallarins og KR-ingar sóttu mikið inn í teiginn enda með mun stærra lið en gestir sínir. Margrét Kara kom KR í 20-8 en fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 23-11 þar sem Jovana Lilja Stefánsdóttir setti þrist í lokin en erlendi leikmaður Grindvíkinga, Michele DeVault, var ekki komin á blað!
Grindvíkingar hristu af sér slyðruorðið í öðrum leikhluta og DeVault sá sóma sinn í því að skora eftir um 13 mínútna leik. Þegar líða tók á annan leikhluta hertu Grindvíkingar róðurinn og KR-ingar kvörtuðu undan stífum varnarleik, svo stífum að Benedikt Guðmundsson þjálfari KR fékk viðvörun frá Jóni Guðmundssyni, öðrum dómara leiksins.
Allt útlit var fyrir að DeVault væri að vakna um leið og aukin harka færðist í leikinn en hún minnkaði muninn í 30-21 með þriggja stiga skoti. Skömmu síðar var höggvið skarð í hávaxinn teig KR þar sem þær Helga Einarsdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir fengu báðar þrjár villur með skömmu millibili. Grindvíkingar héldu svo í við KR sem leiddi 38-28 eftir fyrri hálfleik.
Margrét Kara Sturludóttir var með 10 stig í liði KR í hálfleik en þær Jovana Lilja og DeVault voru báðar með 12 stig í liði Grindavíkur.
Oftar en einu sinni hefur það gerst í vetur að topplið KR geri út um leikina í þriðja leikhluta og á því varð engin undantekning í kvöld nema hvað Petrúnella Skúladóttir skekkti myndina aðeins í byrjun síðari hálfleiks. Petrúnella gerði sín fyrstu stig í leiknum með þriggja stiga körfu í upphafi þriðja leikhluta og staðan 42-31. KR gerði næstu 8 stig í röð og leiddu 50-31 þegar um 5 mínútur voru liðnar af leikhlutanum og Grindvíkingar tóku leikhlé sem skilaði þeim 11 stigum á næstu fimm mínútum á meðan KR-ingar gerðu 9 og staðan 59-42 fyrir lokasprettinn.
Aftur var Petrúnella með smá derring og smellti niður þrist í upphafi fjórða leikhluta og staðan 59-45 fyrir KR. Staðreyndin var einfaldlega sú að KR hljóp á 11 leikmönnum í kvöld sem allir komu klárir inn á parketið á meðan Grindvíkingar notuðust aðallega við sjö leikmenn sem áttu ekki bensín í lokaátökin. KR sigldi því framúr og náði upp sínum mesta mun og vann leikinn þannig með 25 stiga mun, 81-56. Frækinn sigur KR-inga í höfn og önnur lið í deildinni mega aldeilis fara að gyrða í brók ef þeirra helsta keppikefli á að vera um silfurpeninga þessa leiktíðina.
Þær Guðrún Gróa og Unnur Tara gerðu sín hvor 10 stigin í kvöld fyrir KR og áttu fína spretti en þær Jovana Lilja og Petrúnella voru stigahæstar í liði Grindavíkur, báðar með 15 stig. Helga Hallgrímsdóttir gerði 4 stig fyrir Grindavík og tók 11 fráköst og hafði í mörg horn að líta í Grindavíkurteignum gegn sterkum miðherjum KR. DeVault lauk leik með 12 stig fyrir Grindavík og þarf hún að skila mun meira af sér gegn jafn sterku liði og KR ef ekki á jafn illa að fara og raun bar vitni í kvöld.