Heil umferð fer fram í Domino´s-deild kvenna í kvöld og er það 25. umferð deildarinnar. Með leikjum kvöldsins eru því alls átta stig eftir í pottinum og enn geta orðið umtalsverðar hræringar á liðunum í töflunni.
Stórleikur kvöldsins er viðureign Keflavíkur og Skallagríms en liðin hafa bæði 36 stig í 2.-3. sæti deildarinnar og Keflvíkingar með betri innbyrðisstöðu í augnablikinu. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 Viðureign Keflavíkur og Skallagríms verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport – rás 4.
Þá mætast Haukar og Snæfell í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Snæfell á toppnum með 38 stig í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn en Haukar í 7. sæti með 12 stig og þegar ljóst að Haukar hafa fyrirgert möguleikum sínum á úrslitakeppninni þetta tímabilið.
Í Grindavík mætast heimakonur og Njarðvík. Grindvíkingar á botni deildarinnar með 6 stig en Njarðvíkingar í baráttu um síðasta lausa sætið í úrslitakeppninni. Snæfell, Keflavík og Skallagrímur hafa öll tryggt þátttöku sína í úrslitakeppninni en Stjarnan, Valur og Njarðvík eiga enn öll möguleika á 4. sætinu svo það er til mikils að vinna fyrir Njarðvíkurkonur í Mustad-höllinni í kvöld.
Í Garðabæ verður mjög athyglisverður leikur þegar Stjarnan tekur á móti Val. Stjarnan með 24 stig í 4. sætinu en Valur í 5.-6. sæti með Njarðvík með 20 stig. Í kvöld fer Stjarnan langt með að ná sér í sæti í úrslitakeppninni með sigri en ef Valskonur vinna er nokkuð ljóst að kapphlaupið um fjórða sæti verður enn meira spennandi.
Leikir kvöldsins í Domino´s-deild kvenna, 19:15
Haukar – Snæfell
Grindavík – Njarðvík
Keflavík – Skallagrímur
Stjarnan – Valur
Mynd/ Ólafur Þór – Skallagrímur og Stjarnan verða í hörku leikjum í kvöld, Garðbæingar fá Val í heimsókn en Borgnesingar mæta til Keflavíkur í sannkallaðan toppslag.



