spot_img
HomeFréttirKanalausir Skallar lögðu Valsara

Kanalausir Skallar lögðu Valsara

Valsmenn tóku á móti Skallagrími í áttundu umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Um sannkallaðan fjögurra stiga leik var að ræða í Vodafone-höllinni þar sem tvö neðstu lið deildarinnar mættust. Fyrir fram mátti því búast við hörku leik og ljóst var að bæði lið myndu leggja allt í sölurnar.
 
 
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og augljóst var að bæði liðin gerðu sér fyllilega grein fyrir mikilvægi leiksins. Jafnt var á öllum tölum en fyrsti fjórðungur einkenndist af mikilli baráttu beggja liða. Eftir rúmlega 5 mínútna leik í stöðunni 15-15 urðu Skallagrímsmenn fyrir miklu áfalli þegar Kani þeirra, Oscar Jermaine Bellfield, þurfti að fara af leikvelli tognaður í læri. Það virtist hins vegar ekki aftra piltunum frá höfuðstað Vesturlands að ráði en áfram var jafnt á öllum tölum. Eftir fyrsta fjórðung var staðan 23-22 heimamönnum í vil þar sem stigaskor beggja liða dreifðist drengilega á milli leikmanna.
 
 
Gestirnir byrjuðu annan leikhluta að krafti og sigu fram úr heimamönnum með flottu framlagi frá Agli Egilssyni og Trausta Eiríkssyni, 25-33. Munurinn hélst í 6-8 stigum út leikhlutann en Borgnesingar virtust alltaf vera skrefinu á undan Valsmönnum. Skallagrímsmenn leiddu með 6 stigum í leikhléi, 38-44. Egill Egilsson var atkvæðamestur gestanna í hálfleik með 11 stig en Chris Woods var allt í öllu í sóknarleik heimamanna og var með 15 stig eftir annan leikhluta.
 
Skallagrímsmenn byrjuðu þriðja leikhluta af krafti og náðu 9 stiga forskoti 44-53 þar sem Grétar Ingi Erlendsson var drjúgur undir körfunni. Heimamenn náðu þó að koma til baka og minnkuðu muninn niður í 5 stig, 53-58 með flottri baráttu og framlagi frá Chris Woods og Birgi Péturssyni. Áfram héldu Valsmenn að þjarma að gestunum og náðu að minnka muninn niður í 3 stig, 60-63. Skallagrímsmenn héldu þó forystunni út leikhlutann en staðan eftir þriðja fjórðung var 64-69 gestunum í vil og allt stefndi í rafmagnaðan lokafjórðung.
 
Lítið hafði farið fyrir Páli Axel fyrir lokafjórðunginn en hann lét heldur betur vita af sér í byrjun fjórða leikhluta og sallaði niður 12 fyrstu stigum Skallagrímsmanna og virtist vera óstöðvandi. Heimamenn áttu fá svör við aldursforsetanum og fljótt var munurinn orðin 10 stig, 66-76. Skallagrímsmenn kláruðu svo leikinn endanlega með fínum sprettum frá Orra, Agli og Grétari á meðan að heimamenn drifu sig óþarflega mikið í sóknarleik sínum sem skilaði litlum árangri. Gestirnir náðu 20 stiga forskoti sem þeir héldu síðan út leikinn en lokatölur í kvöld voru 83-102 Borgnesingum í vil.
 
Kanalausir Skallagrímsmenn nældu sér þar með í tvö rándýr stig í botnslagnum og skildu Valsmenn eftir á botninum ásamt KFÍ. Ljóst er að Valsmenn þurfa að bæta sinn leik verulega ætli þeir sér að ná fleiri stigum í vetur en til að mynda hittu þeir skelfilega fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld en aðeins 4 skot af 22 rötuðu rétta leið.
 
Chris Woods var allt í öllu í liði heimamanna og endaði leikinn með 26 stig og 12 fráköst. Rúnar Ingi Erlingsson bætti 16 stigum við og hirti 11 fráköst. Í liði gestanna var Grétar Ingi Erlendsson atkvæðamestur með 21 stig og 13 fráköst. Páll Axel og Egill komu þar næstir með 18 stig hvor.
 
 
Umfjöllun/ Diddi Viðars
Mynd/ [email protected][email protected] – Grétar Ingi Erlendsson í „traffík“ í Valsteignum.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -