spot_img
HomeFréttirKálfurinn og ofeldið

Kálfurinn og ofeldið

Nú þegar vertíðin stendur sem hæst, hækkandi sól og stórleikir við hvert fótmál í körfuboltanum þá eru margir sem eiga þess ekki kost að komast á hina eða þessa leiki. Líkt og hin síðari ár hefur Stöð 2 Sport sýningarréttinn á úrslitakeppninni í Domino´s deild karla. Framkvæmd þeirra á útsendingunum er mikið afbragð og hefur undirritaður jafnan talað um að nú geti fólk ,,Svalað” sér á körfuknattleik því Svali Björgvinsson er mættur til leiks og hann er fyrir körfuknattleik það sem Sigurbjörn Árni er fyrir frjálsar, algerlega ómissandi!
 
Eins og gefur að skilja er það vart raunhæft að sýna hvern einasta leik í úrslitakeppni karla. Bara 8-liða úrslitin í karlaflokki töldu alls tíu leiki þetta árið, þeir geta mest orðið 12 ef allir fara í oddaleik. Nokkuð hefur nú borið á því að stöku harmakvein heyrist á samskiptamiðlunum Facebook og Twitter vegna þess að einhver leikur var ekki sýndur, t.d. nú síðast fyrsta viðureign Snæfells og Stjörnunnar.
 
Guðmundur Bragason þjálfari Grindavíkurkvenna og reglulegur gestur á Stöð 2 Sport þegar körfubolti er til umfjöllunar lýsti óánægju sinni með þá staðreynd að fyrsti leikurinn í undanúrslitum í Hólminum hafi ekki verið sýndur í beinni. Hjörvar Hafliðason knattspyrnuspekúlant og starfsmaður 365 miðla kvað kvartanir Guðmundar ömurlegar og talaði um kálf og ofeldi í þessum efnum, þ.e. að körfuknattleikurinn væri ofalinn.
 
Hvað sem ofangreindu líður þá berst talið svo oft að Sport TV og útsendingum einstakra félaga á netinu. Þær útsendingar geta allir nálgast en þær hafa margar hverjar hlotið sína eigin gagnrýni og það umtalsverða. Að viðbættum sjálfstætt starfandi vefsíðum eins og t.d. Karfan.is, NBA Ísland, Leikbrot.is, Ruslinu, Fúsíjama TV og fleiri síðum sem starfræktar hafa verið í gegnum tíðina þá get ég tekið undir með Hjörvari þegar hann ræðir um ofeldi.
 
Sjálfstætt starfandi síður eins og taldar eru hér að ofan mega sín lítils þegar stórir atvinnumiðlar bregða undir sig betri fætinum. Betri fóturinn fer í gang þegar úrslitakeppnin hefst, skyldi einhvern undra? Varla, við kynnum úrslitakeppnina sem nýja og allt aðra keppni, það gera forystumenn hreyfingarinnar, leikmenn, þjálfarar og aðrir óbreyttir. Ofeldið sem Hjörvar talar um í Twitter-færslu sinni í gær er ekki sama ofeldið og mig langar til að benda á, ofeldið hér felst í því að vilja allt fyrir ekkert! Ofeldi knattspyrnuáhugafólks er svo annað mál því hér er fjallað um körfuknattleik.
 
Twitter og Facebook hafa ljáð mörgum rödd sem hefðu í ófá skiptin betur setið á dreng sínum. Körfuknattleiksfólk hérlendis er ekki ofalið, því fer víðsfjarri en margir hverjir ganga alltof vasklega fram í heimtufrekju sinni. Ef það er skilningur á því að úrslitakeppnin sé algerlega rjóminn í starfsemi körfuboltans á Íslandi þá hlýtur að vera skilningur á því að einhver vilji tryggja sér útsendingaréttinn. Aðilinn með útsendingaréttinn ver hann svo eftir sinni kostgæfni. Þá hlýtur líka að vera skilningur fyrir því að ekki sé hægt að sýna alla leikina í úrslitakeppninni en margir tala um að af hverju megi þá ekki þessi eða hinn sýna leik sem Stöð 2 Sport ætlar ekki að sýna frá. Spurningin er jafnvel fáránlegri en svarið getur nokkurntíman orðið.
 
Mikill vill meira og margar íþróttagreinar horfa öfundaraugum á það starf sem unnið er í og við körfuboltann í landinu. Auðvitað vildi ég geta séð hvern einasta körfuboltaleik hérlendis í sjónvarpi en það er jafn raunhæft og að mér takist að greiða niður íbúðalánið mitt áður en ég fer á feðra minna fund. Stundum er líka bara gott að vera þakklátur fyrir það sem þegar er verið að gera, þeir sem vilja meira geta þá bara tekið þátt í baráttunni með okkur hinum.
 
Ritstjóri Karfan.is 
Fréttir
- Auglýsing -