spot_img
HomeFréttirKaflaskiptur leikur í Vodafone-höllinni

Kaflaskiptur leikur í Vodafone-höllinni

Það var ekki beint margt um manninn í Vodafone-höllinni í kvöld þegar Valsmenn tóku á móti Grindvíkingum en fyrirfram var kannski ekki að búast við ýkja spennandi leik líkt og staðan í deildinni gefur til kynna. Grindvíkingar eru búnir að vera sjóðandi heitir eftir áramót en þeir slógu Njarðvíkinga út úr bikarnum á dögunum ásamt því að verða fyrstir til að sigra KR-inga í þarsíðustu umferð. Það hefur hinsvegar verið fátt um fína drætti hjá Valsmönnum í vetur en þeir voru einungis með 2 stig á botni deildarinnar fyrir leikinn í kvöld.
 
 
Valsmenn byrjuðu mun betur í leiknum í kvöld en þeir komust í 8-0 með tveimur þristum frá Benedikt Blöndal og stigum frá Chris Woods. Gestirnir vöknuðu þá til lífsins og skoruðu 9 stig í röð. Valsmenn voru þó alltaf skrefinu á undan í fyrsta leikhluta með Birgi Björn í farabroddi sem nældi sér í þrjú ,,and 1” með stuttu millibili. Grindvíkingar voru ekki langt undan en Jóhann Árni hélt þeim inn í leiknum með fínni spilamennsku. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-22 Valsmönnum í vil en Birgir Björn var að spila fantavel og skoraði 10 stig í leikhlutanum.
 
Valsmenn hófu annan leikhluta líkt og þann fyrri og keyrðu hratt á gestina sem virtust vera algjörlega áhugalausir í fyrri hálfleik og spiluðu á köflum letilega jafnt í sókn sem vörn. Birgir Björn hélt áfram að spila vel og kom Valsmönnum í 34-27. Heimamenn bættu enn í og komust 11 stigum yfir 42-31, Sverri Þór þjálfara Grindvíkinga til mikillar gremju sem var hoppandi vitlaus á hliðarlínunni og tók 2 leikhlé með stuttu millibili án sjáanlegs árangurs. Valsmenn spiluðu með mikilli orku út leikhlutann og héldu til búningsklefa með 7 stiga forskot í hálfleik, 50-43.
 
Það var svo allt annað Grindavíkurlið sem mætti til seinni hálfleiks en með sterkri vörn og hröðum sóknum náðu þeir að jafna leikinn á skömmum tíma, 52-52. Það var ekki síst kani þeirra gulklæddu, Earnest Lewis Clinch, sem steig upp en hann tróð í tvígang með tilþrifum til að kveikja í sínum mönnum. Grindvíkingar voru hvergi nærri hættir eftir að þeir höfðu loks jafnað leikinn en Jóhann Árni kórónaði 19-0 rispu gestanna með flottri ,,and 1” körfu og kom Grindvíkingum í 52-62. Leikurinn snérist því gersamlega við í þriðja leikhluta þar sem gestirnir gjörsamlega yfirspiluðu heimamenn og voru 9 stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 60-69.
 
Það stefndi svo allt í það að Grindvík myndu klára leikinn nokkuð þægilega þegar þeir komust 13 stigum yfir 60-73 en Valsmenn náðu að kveikja á baráttuandanum aftur og minnkuðu muninn í 5 stig 68-73 með flottum rispum frá Woods og Benedikt Blöndal. Liðin skiptust þá á að skora en gestirnir voru sterkari á lokasprettinum þar sem Clinch, Jóhann og Siggi stigu upp fyrir Grindvíkinga. Gestirnir lönduðu því sigri í kaflaskiptum leik í kvöld en lokatölur voru 89-100.
 
Valsmenn sitja því enn á botninum með 2 stig þrátt fyrir ágæta frammistöðu í kvöld en Birgir Björn var sprækastur heimamanna með 25 stig og 8 fráköst. Woods skilaði einnig flottum tölum með 24 stig og 13 fráköst. Benedikt Blöndal skoraði svo 17 stig en hann átti fínan leik ásamt Oddi Ólafssyni sem skoraði 16 stig.
 
Þrír menn stóðu uppúr hjá Grindvíkingum í kvöld en Clinch skoraði 23 stig og átti frábæran seinni hálfleik á meðan að Siggi og Jóhann Árni settu báðir 21 stig.
 
 
Mynd: JÓÓ
Umfjöllun: ÞÖV
 
  
Fréttir
- Auglýsing -