Risinn Djorde Pantelic var fljótur að stimpla sig inn meðal stuðningsmanna Stjörnunnar en hann átti frábæran leik í kvöld þegar Stjarnan lagði ÍR að velli 80-71 í Iceland Express-deildinni. Hann var nálægt sannkallaðri tröllatvennu með 16 stig og 15 fráköst.
Með sigrinum er Stjarnan komin á fullt í toppbaráttuna og eru með 24 stig, aðeins tveimur á eftir toppliði KR. Þessi lið mætast einmitt í 20. umferð. Stjörnumenn voru án Magnúsar Helgasonar og hjá ÍR vantaði Hreggvið Magnússon og Sveinbjörn Claessen.
Stjörnumenn áttu fyrstu fjögur stig leiksins með körfum frá Fannari Helgasyni og Jovan Zdravevski. Kristinn Jónasson minnkaði muninn með þriggja-stiga körfu en þá kom frábær kafli frá heimamönnum og settu þeir níu stig í röð og staðan 12-3. Margt benti til þess að Stjörnumenn ætluðu að stinga af og leiddu þeir 28-16 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta komust ÍR-ingar betur inn í leikinn og minnkuðu muninn í fjögur stig í hálfleik 44-40. Sóknarleikur Stjörnumanna fór eingöngu í gegnum þá Jovan Zdravevski, Justin Shouse, Fannar Helgason og Djordje Pantelic en þeir fjórir voru með 42 af 44 stigum heimamanna í hálfleik. Á meðan var stigaskorið mun dreifðara hjá gestunum og voru níu ÍR-ingar komnir á blað í hálfleik.
Gunnar Sverrisson, þjálfari ÍR, þurfti að fara vel yfir málin með sínum mönnum í hálfleik en ÍR-ingar máttu ekki við því að missa Stjörnumenn of langt frá sér í upphafi seinni hálfleiks. Liðið þurfti að vera á tánum ólíkt því sem var í upphafi leiks. Það tókst hjá ÍR en hvorugt liðanna setti niður fyrstu skotin sín. Justin Shouse skoraði fyrstu körfu seinni hálfleiks og jók muninn í sex stig. Stjarnan minnkaði muninn í þrjú stig 50-47 með stigum frá Nemanja Sovic en hann skoraði sjö fyrstu stig gestanna í hálfleiknum. Stjörnumenn með Justin Shouse í broddi fylkingar jók muninn og leiddu þeir 62-57 þegar þriðji var búinn og allt stefndi í æsispennandi lokaleikhluta.
Ólafur J. Sigurðsson, kom inná um miðjan þriðja leikhluta, og fékk hann hlýjar móttökur frá áhorfendum en hann er nýgenginn til liðs við Stjörnuna frá danska liðinu Aabyhøj. Áhorfendur beggja liða klöppuðu fyrir honum en Ólafur er uppalinn ÍR-ingur og lék með liðinu um árabil áður en hann skipti yfir í Stjörnunnar sumarið 2008.
Fyrstu körfu fjórða leikhluta skoraði Ásgeir Hlöðversson og minnkaði muninn fyrir ÍR. Stjarnan leiddi 66-62 eftir að Justin Shouse setti tvö víti fyrir heimamenn. Þá setti leikstjórnandi ÍR, Mike Jefferson, niður þriggja-stiga körfu og minnkaði muninn í eitt stig. Stjörnumenn náðu ekki að skora í næstu sókn og Mike Jefferson setti annan þrist og ÍR-ingar komnir yfir, 66-68, í fyrsta skipti í leiknum.
Stjörnumenn komust yfir á ný 70-68 með fjórum stigum frá Fannari Helgasyni og Djorde Pantelic. Steinar Arson jafnaði leikinn á línunni 70-70 og farið að hitna hressilega í Ásgarði.
Kjartan Kjartansson fékk tvö víti í næstu sókn en brást bogalistin í báðum skotum og ÍR-ingar héldu í sókn. ÍR-ingar náðu tveimur þriggja-stiga skotum en hvorugt vildi ofaní. Fannar Helgason kom Stjörnunni yfir 72-70 með laglegu skoti nálægt körfunni þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum. Stjörnumenn náðu boltanum á ný og gátu með því að skora í næstu sókn aukið muninn í fjögur stig. Nýji leikmaðurinn Djorde Pantelic skoraði um leið og skotklukkan kláraðist með laglegu sniðskoti. Þessi stóri strákur sem vegur án efa vel á annað hundrað kíló nýtti líkamsstyrk sinn vel í að komast að körfunni.
Í næstu sókn skoruðu ÍR-ingar en voru aðeins of seinir en skotklukkan glumdi um leið og Kristinn Jónasson fékk boltann undir körfunni og 24 sekúndur dæmdar á ÍR-inga. Eftir það var sigurinn kominn í höfn hjá heimamönnum sem unnu sannkallaðan vinnusigur. Að sama skapi voru ÍR-ingar óheppnir að vinna ekki en þeir fengu mörg tækifæri til að auka muninn þegar þeir leiddu í lokaleikhlutanum með tveimur stigum. Karfa þá hefði án efa breytt leiknum ef gestirnir hefðu náð fjögurra stiga forystu.
Djorde Pantelic(16 stig og 15 fráköst) var frábær hjá Stjörnunni. Þessi leikmaður eykur breidd Stjörnumanna gífurlega og kemur með eitthvað nýtt inn en þetta er mikill skrokkur og þarf aðeins að hlaupa meira til að komast í betra form. Justin Shouse(31 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst) var að vanda frábær en Mike Jeffries lét hann hafa fyrir hlutunum í kvöld. Þrátt fyrir það skilaði hann frábærum tölum og leiddi liðið þegar á reyndi. Jovan Zdravevski var ágætur og skoraði nokkrar mikilvægar körfur. Fannar Helgason fann sig ekki í kvöld þó hann skoraði mikilvæga körfu í fjórða leikhluta og fékk hann m.a. tæknivillu fyrir að kvarta í ágætum dómurum leiksins. 11 af 15 stigum hans komu snemma í leiknum.
Hjá ÍR var Nemanja Sovic mjög öflugur í seinni hálfleik og réðu heimamenn ekkert við hann á köflum. Endaði hann leikinn með 16 stig en ÍR-ingar þurftu að leita meira til hans á lokamínutum leiksins. Mike Jeffries var betri þegar leið á leikinn og skoraði mikilvægar körfur m.a. þær sem komu ÍR yfir. Hann þarf að læra betur inn á liðsfélaga sína en hann er stundum aðeins of lengi með boltann. Kristinn Jónasson átti flottan leik(7 stig og 7 fráköst) en hann var frábær í vörninni ásamt Ásgeiri Hlöðverssyni sem kom sterkur af bekknum.
Myndasafn úr leiknum eftir Tomazs Kolodziejski
Umfjöllun: Stefán Már Haraldsson
Mynd: [email protected]



