spot_img
HomeFréttirJustin: Maður hugsar um þessar stundir á sumrin

Justin: Maður hugsar um þessar stundir á sumrin

Justin Shouse gerði 31 stig í bikarsigri Stjörnunnar í Borgarnesi í kvöld. Shouse var að vonum hinn kátasti í leikslok en þetta árið verður í þriðja sinn sem hann fer í bikarúrslit með Stjörnunni en í fyrsta sinn sem hann fer í bikarúrslit án félaga síns Jovans Zdravevski.
 
 
„Já mér finnst eins og við séum bikarlið, vissulega hefur okkur verið hent snemma úr keppninni önnur ár en þegar við náum þessu í gang þá já, þá erum við bikarlið vissulega. Okkur finnst við í raun geta unnið öll lið á góðum degi en það verður virkilega gaman að sjá hverjum við mætum,“ sagði Justin en það skýrist annað kvöld í DHL Höllinni þegar KR tekur á móti Tindastól.
 
Á hvort liðið veðjar Shouse?
„Þetta verður hörku barátta í DHL-Höllinni og heimavöllurinn gefur KR smá forskot en Tindastóll vann þá um daginn og það gæti einnig gefið þeim smá forskot. Ég á enga óskamótherja, sama hvort liðið vinnur annað kvöld þá verður úrslitaleikurinn í Höllinni rosalegur.“
 
En að leik kvöldsins, Borgnesingar fóru ekkert mjúkum höndum um ykkur?
Sveitastrákar leggja hart að sér og þeir eru bara þannig, svoleiðis komast þeir til manns í boltanum og þannig lékum við í Stykkishólmi. Þegar ég kom hingað í Borgarnes með Snæfellsliðinu á sínum tíma þá vissum við að við yrðum teknir föstum tökum en maður gerir það sem maður getur, tekur höggin og stundum færðu dæmt og stundum ekki,“ sagði Shouse og kvaðst ánægður með aukna yfirvegun í herbúðum Garðbæinga.
 
„Stundum höfum við misst einbeitinguna þegar herðir á dalinn en nú erum við að standa okkur betur í því að halda einbeitingunni, við erum ekki vælukjóarnir úr Garðabæ og t.d. farnir að nálgast dómarana öðruvísi, með meiri yfirvegun.“
 
Hvað með 21. febrúar, sjálf bikarúrslitin, orðinn spenntur nú þegar?
„Ekki spurning, þegar maður æfir á sumrin, búinn að taka 250 skot einn daginn og varla nennir að taka þessi 100 sem eftir eru þá eru það þessar stundir sem maður er að hugsa um. Tækifærið til að leika í Höllinni! Að þessu sinni verð ég ekki með „Hallarvin“-minn með mér, Jovan Zdravevski, en við erum engu að síður með sterkan hóp. Ég tel okkur jafnvel dýpri en oft áður og við erum spenntir fyrir ferðinni í Höllina og fá tækifæri til þess að reyna við bikarinn aftur fyrir Garðabæ.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -