10:24
{mosimage}
(Jovana Lilja Stefánsdóttir)
Grindvíkingurinn Jovana Lilja Stefánsdóttir er nefbrotin og verður frá leik með Bikarmeisturum Grindavíkur næstu tvær vikurnar. Jovana nefbrotnaði í samstuði við landsliðsmiðherjann Signýju Hermannsdóttur í viðureign Grindavíkur og Vals í Röstinni á dögunum.
Atvikið átti sér stað snemma í leiknum og fór Jovana af velli og lék ekki meir. Signý kom hinsvegar að nýju inn á völlinn og skartaði þar veglegum vafningi á höfði. Jovana var ekki með Grindavík þegar gular lágu í síðustu umferð gegn Hamri eftir framlengdan leik í Grindavík.
,,Læknirinn sagði við mig að ég yrði að hvíla mig í um 2 vikur og þá má ég byrja að spila. Ég veit samt ekki alveg hvað ég geri en ég ætla að mæta á æfingu í kvöld og fá mér grímu og svo sjáum við bara til með framhaldið,“ sagði Jovana í samtali við Karfan.is. Jovana er einn af lykilleikmönnum Grindavíkur og mega gular ekki við því lengi að hafa hana frá.
Næsti leikur Grindavíkur er miðvikudaginn 5. nóvember þegar verður Suðurnesjaslagur. Grindavík mætir þá Keflavík í Toyotahöllinni.