14:30
{mosimage}
(Fyrirliðarnir Kristrún og Jovana með bikarinn eftirsótta)
Jovana Lilja Stefánsdóttir er fyrirliði Grindavíkur og á dögunum var hún valin í úrvalslið Iceland Express deildar kvenna fyrir umferðir 10-17. Grindvíkingar máttu sætta sig við ósigur gegn Keflavík í framlengdum spennuleik á miðvikudag en núna er það bikarúrslitaleikurinn gegn Haukum á sunnudag sem á hug þeirra allan. Leikurinn hefst kl. 14:00 í Laugardalshöll á sunnudag og gerir Jovana ráð fyrir því að AC DC eða Metallica verði á fóninum skömmu fyrir leik.
,,Já, við erum í kunnuglegum sporum og bikarúrslitaleikir Grindavíkur hafa ekki fengið farsælan endi í kvennaflokki,” sagði Jovana sem á sunnudag leikur sinn þriðja bikarúrslitaleik með Grindavík. ,,Við höfum skýr markmið fyrir sunnudaginn, við vitum hvað við viljum gera, það er ekkert leyndarmál að við viljum spila okkar góðu vörn og sækja hratt og stíft á Hauka,” sagði Jovana en hvar hafa Haukar betur gegn Grindavík þegar liðin eru borin saman?
,,Haukar hafa meiri breidd en við inni í teignum svo það verður mikilvægt fyrir okkur að stíga þær út. Þá hafa Haukar ágætar skyttur svo við erum að mæta liði sem er með sterka leikmenn í öllum stöðum,” sagði Jovana sem vonaðist til þess að Grindvíkingar myndu fjölmenna í Höllina og styðja við bakið á sínu liði.
Hvernig ætla Grindvíkingar að verja þessum fáu stundum fyrir leik? ,,Leikurinn er snemma svo við borðum saman og mögnum upp stemmninguna og það mun vonandi landa okkur sigri,” sagði Jovana en hvaða lag verður það síðasta sem hún ætlar að nota til þess að keyra sig upp fyrir leikinn? ,,Það verður eitthvað svakalegt rokkla, ekkert Eric Clapton eitthvað,” sagði Jovana kát í bragði. ,,Ætli það verði ekki bara eitthvað með AC DC eða Metallica.”
Grindavík-Haukar
Laugardalshöll sunnudaginn 24. febrúar
Kl. 14:00



