spot_img
HomeFréttirJovan til Stjörnunnar

Jovan til Stjörnunnar

20:39
{mosimage}

(Jovan með KR gegn Grindavík í DHL-Höllinni) 

Jovan Zdravevski gekk í dag til liðs við nýliða Stjörnunnar í Iceland Express deild karla og mun leika með liðinu út þessa leiktíð. Þar mun hann hitta fyrir gamla félaga sinn frá Skallagrímsárunum, Dimitar Karadzovski. Bragi Magnússon, þjálfari Stjörnunnar, staðfesti þessar frengir við Karfan.is nú fyrir skemmstu. Jovan fór í kvöld á sína fyrstu æfingu með Stjörnunni. 

,,Jovan verður með okkur á fimmtudag gegn Fjölni,” sagði Bragi en fyrir vikið var Mansour Mbye, sem var á reynslu hjá Stjörnunni, látinn taka hatt sinn og staf. ,,Jovan skrifaði undir til vors en við ákváðum að ráða ekki Mansour Mbye eftir reynslutíma hans,” sagði Bragi.  

Jovan hefur ekki verið að finna fjölina með Íslandsmeisturum KR í vetur en hann lék 12 deildarleiki fyrir KR og gerði í þeim að jafnaði 10,5 stig í leik. ,,Hann kemur inn í stærra hlutverk hjá okkur en hann gengdi hjá KR og við vorum ekki að ráða Jovan til að hafa hann í einhverju aukahlutverki, hann kemur til með að taka ábyrgð í liðinu og vissar væntingar gerðar til hans sem hann stóð vel undir sín ár hjá Skallagrím,” sagði Bragi. 

Félagarnir Jovan og Dimitar verða því sameinaðir að nýju þegar Stjarnan tekur á móti Fjölni í Ásgarði kl. 19:15 næstkomandi fimmtudagskvöld. Fjölnir situr á botni deildarinnar með 6 stig en Stjarnan hefur 8 stig í 9. sæti deildarinnar.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -