Garðbæingar eru að fá sterka innkomu af bekknum í Jovan Zdravevski í úrslitaseríunni. Stjarnan leiðir einvígið 2-1 gegn Grindavík en liðin mætast aftur annað kvöld í Ásgarði í Garðabæ. Jovan Zdravevski hefur einn af Stjörnubekknum skorað meira í úrslitunum heldur en allur Grindavíkurbekkurinn til samans. Karfan.is kíkti aðeins á framlagið hjá bekkjum liðanna og munurinn er nokkuð afgerandi.
Jovan leikur 1: 7 stig – Stjörnubekkur samtals 9 stig (Kjartan Atli 2 stig)
Jovan leikur 2: 12 stig- Stjörnubekkur samtals 26 stig (Kjartan Atli 3, Dagur Kár 5, Sæmundur 4 og Oddur Rúnar 2)
Jovan leikur 3: 17 stig – Stjörnubekkur samtals 19 stig (Dagur Kár 2 stig)
Stjörnubekkurinn hefur því skorað samtals 54 stig og Jovan gert 36 þeirra stiga.
Leikur 1: Grindavíkurbekkur 5 stig
Leikur 2: Grindavíkurbekkur 6 stig
Leikur 3: Grindavíkurbekkur 8 stig
Grindvíkingar hafa því á alls 120 mínútum fengið 19 stig af bekknum sínum á meðan Stjarnan hefur fengið 54 úr þeirri áttinni.
Það skekkir væntanlega myndina að kraftajötuninn Ryan Pettinella lék ekki með í fyrsta leik sökum veikinda og í öðrum leiknum var kallinn rétt að skríða saman. Af fystu 80 mínútunum í seríunni lék Pettinella aðeins í leik tvö og þá í tæpar þrjár mínútur. Í leik þrjú fékk hann tæpar níu mínútur svo þær eru um 12 mínúturnar sem þessi stæðilegi leikmaður hefur leikið af þeim 120 sem hafa verið í boði.
Þá er ekki úr vegi til þess að slá botninn í þetta að minna fólk á að mæta tímanlega í Ásgarð annað kvöld en þar er von á miklu fjölmenni. Stjarnan getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins, Grindavík getur svo með sigri nælt sér í oddaleik í Röstinni.