spot_img
HomeFréttirJordan Williams liðsfélagi Hauks skráir sig í nýliðaval NBA

Jordan Williams liðsfélagi Hauks skráir sig í nýliðaval NBA

 
Miðherji Maryland í NCAA háskóladeildinni í körfubolta, Jordan Williams, hefur skráð sig í nýliðaval NBA deildarinnar fyrir næstu leiktíð. Williams var einn helsti prímusmótor í liði Maryland á nýafstaðinni leiktíð en Haukur Helgi Pálsson leikur með liðinu eins og kunnugt er.
Williams var að ljúka sínu öðru ári hjá Maryland og gerði 16,9 stig og tók 11,8 fráköst að meðaltali í leik með Maryland á tímabilinu. Williams mun ekki fá sér umboðsmann til að sjá um sín mál fyrir nýliðavalið en þannig mun hann eiga afturkvæmt inn í lið Maryland ef hann kemst ekki að hjá neinu liði.
 
Gary Williams þjálfari Maryland sagði að skólinn styddi við bak leikmannsins í þessari ákvörðun hans og sjálfur sagði leikmaðurinn að það væri draumur hans að komast upp á næsta stig í íþróttinni og fá punkta frá þjálfurum í NBA deildinni um hvað mætti betur fara í hans leik.
 
Mynd/ Jordan Williams fór mikinn í teignum hjá Maryland í vetur. Haukur og félagar missa veglegan spón úr aski sínum ef Williams kemst að í NBA deildinni.
 
Fréttir
- Auglýsing -