Michael Jordan hefur náð samkomulagi við Bob Johnson, eiganda Charlotta Bobcats, um að kaupa af honum ráðandi hlut í félaginu. Jordan, sem hefur verið meðeigandi og yfirmaður körfuboltamála hjá liðinu síðan 2006 tekur við liðinu á mikilli uppsveiflu þar sem þeir eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn frá stofnun liðsins árið 2004.
NBA-deildin á þó enn eftir að samþykkja kaupin, en ekki er búist við að hún setji sig upp á móti samkomulaginu.
Larry Brown hefur sett saman ágætt lið, en þar sem það hefur tapað peningum allt frá upphafi hafði Johnson ljóst og leynt verið að leita að kaupanda.
Johnson, sem var fyrsti svarti eigandi stórliðs í bandarískum íþróttum, borgaði 300 milljónir til að koma liðinu inn í NBA, en hefur síðan tapað 150 milljónum til viðbótar, þar sem erfitt hefur reynst að fá áhorfendur á leiki. Þar átti Jordan að hjálpa til, en hann er í guðatölu í Norður Karólínuríki þar sem hann fæddist og ólst upp áður en hann leiddi University of North Caroline til meistaratitils árið 1982.
Hann hefur hins vegar ekki skipt sér mikið af liðinu nema þegar kemur að því að ráða starfsfólk og leikmenn, þar sem ferill hans hefur verið ansi gloppóttur. Hann valdi m.a. Adam Morrison með þriðja valkosti árið 2006, en með Brown hefur hann náð að fá til sín sterka leikmenn í skiptum og nú er liðið loks farið að láta að sér kveða.
Ekki er gefið upp hvað Jordan þarf að greiða fyrir liðið, en hann nýtti sér forkaupsrétt að hlut Johnson, sem átti að renna út á miðnætti.



