,,Ég er ótrúlega ánægður og stoltur af þessu liði að ná samt þessum árangri sem við höfum náð. Þetta lið byrjaði tímabilið án Pálínu og Bryndísar og með útlending sem passaði ekki inn í hópinn. Þá voru leikmenn að taka við stærri hlutverkum en þeir höfðu leikið áður,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur í samtali við Karfan.is en Keflavík lá í kvöld gegn Hamri í undanúrslitum kvenna í oddaleik liðanna í Iceland Express deildinni.
,,Ég er sáttur við þennan árangur eftir rimmu við dýrasta lið Íslandssögunnar í kvennaboltanum, ef ég hefði verið spurður fyrir tímabilið hvort ég yrði sáttur við þessa niðurstöðu hefði ég svarað játandi. Þetta var ekki okkar ár en ef við berum saman árangurinn og önnur lið í deildinni og mannskapinn þeirra þá er ég sáttur. Við hófum þessa leiktíð með nýtt lið án Pálínu, Bryndísar og Ingibjargar Elvu og því vorum við stöðugt að púsla. Erlendi leikmaðurinn sem við fengum fyrst passaði ekki í hópinn. Árangurinn okkar var kannski ekki til fyrirmyndar en góður er hann í samanburði við önnur lið deildarinnar,“ sagði Jón en varðandi leik kvöldsins, hafði Keflavík ekki þrek í að klára dæmið?
,,Formið var fínt í kvöld en þetta datt bara ekki með okkur. Það vantaði framlag frá fleiri leikmönnum þó svo Svava og Birna hefðu verið frábærar. Við þurftum meira til að vinna lið eins og Hamar en það vantaði bara herslumuninn. Ég get ekki annað en verið stoltur af því að ná oddaleik gegn Hamri með fjölmarga landsliðsmenn og tvo erlenda leikmenn. Það er engin skömm að því að tapa gegn svona liði,“ sagði Jón en hvernig verður framhaldið hjá Keflavík?
,,Það er æfing á morgun, við förum og gerum eitthvað skemmtilegt, ég er ekki alveg tilbúinn til þess að fara í frí strax svo við höldum eitthvað áfram,“ sagði Jón en þetta er þá annað árið í röð sem Keflavík leikur ekki til úrslita og þriðja árið í röð sem KR leikur til úrslita.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski



