spot_img
HomeFréttirJón Halldór: Skila af mér Keflavík á toppnum og er hættur!

Jón Halldór: Skila af mér Keflavík á toppnum og er hættur!

 
,,I love it, I love it,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkurkvenna í samtali við Karfan.is eftir að Keflavík hampaði Íslandsmeistaratitlinum í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Jón kom eins og stormsveipur inn í kvennaboltann á Íslandi fyrir fimm árum en hefur aðeins fært sig yfir í tempraða beltið síðustu misseri. Sumir hafa gengið svo langt að velta því fyrir sér hvort Jón sé á leið á þing, svo yfirvegaður er kappinn orðinn eftir hvellinn sem kom með honum inn í deildina.
,,Þetta er það sem maður lærir af þessum reynsluboltnum sem eru í þessum klúbbi. Anna María Sveinsdóttir er búin að vera með mig í kennslustund síðustu ár og maður bara þroskast,“ sagði Jón Halldór og hló dátt sem nú er búinn að taka sína fyrstu slemmu með Keflavíkurkonur, allir titlar í húsi.
 
,,Einhvern tíman ætlaði ég að fara að skipta mér af pólitík en sem betur fer gerði ég það ekki,“ sagði Jón Halldór sem á köflum í kvöld sýndi gamla og góða takta, stöku hárþurrka á sína leikmenn og læti á hliðarlínunni eins og Jón er alþekktur fyrir ásamt hressilegum viðtölum.
 
,,Maður þarf samt ekkert að taka hárþurrkuna á þessar elskur, stundum koma þær en það má ekki í svona leikjum heldur þarf að halda gleðinni og vera jákvæður og okkur tókst það í seinni hálfleik,“ sagði Jón en er það erfitt að halda gleðinni þegar mikið hefur gengið á og úrslitaeinvígið í jafn miklum varnarlás og raun bar vitni?
 
,,Við lendum í því að skipta um erlendan leikmann í miðri úrslitakeppni og það er svo erfitt að fá nýjan aðila inn í þetta sem er ekki fullviss á sínu hlutverki, kemur inn og leysir af einn besta leikmann deildarinnar og þetta skarð sem Jacquline Adamshick skildi eftir sig var vandfyllt,“ sagði Jón en hvernig stenst þetta tímabil samanburð við önnur nú þegar þjálfarinn lítur til baka.
 
,,Það sem ég er kannski stoltastur af er að við höfum alltaf verið í séns og við höfum alltaf verið í toppnum alveg sama hvað hefur gengið á. Ég hef verið í endalausum meiðslum með liðið mitt og á þessu tímabili frá byrjun þá er Marín úti, Svava er úti og Rannveig. Birna spilaði svo þessa seríu í nýrnakasti, var með nýrnasteina en spilaði samt! Það má ekki koma við hana án þess að hún kveinkaði sér en hún kláraði þetta samt. Hún var búin til í ljósa-showi undir Drangey, þú verður ekkert harðari en það! Birna er skagfirskur gæðingur, það er klárt!“
 
Hvað með framhaldið?
 
,,Ég er hættur með Keflavík, það er klárt. Ég ákvað að skila þessu af mér svona. Enda á toppnum en ég veit ekkert hvað ég geri en ég veit að þetta er orðið gott með Keflavík.“
 
Mynd/ Jón Halldór og Falur Harðarson með sigurlaunin. Á myndinni er einnig Arnór Daði sonur Jóns.
 
Fréttir
- Auglýsing -