spot_img
HomeFréttirJón Halldór: Liðsheildin er sigurformúlan

Jón Halldór: Liðsheildin er sigurformúlan

11:15

{mosimage}

 

(Jón Halldór Eðvaldsson) 

 

Keflavík tyllti sér í gærkvöldi á topp Iceland Express deildar kvenna í gærkvöldi er þær kváðu niður Haukagrýluna sem stríddi þeim óspart á síðustu leiktíð. Silfrið var þungt um hálsinn hjá Keflavík í fyrra og gekk það svo langt að þjálfarinn, Jón Halldór Eðvaldsson, var af sumum kallaður John Silver. Keflavík lagði Hauka í gærkvöldi 91-106 að Ásvöllum í Hafnarfirði og sagði Jón að það væri fyrst og fremst liðsheild Keflavíkur sem væri að skila þessum góða árangri. Frá þessu er greint á www.vf.is

 

,,Það eru lið sem vinna leiki og titla en ekki einstaklingar. Það er klárt að við höfðum sigurinn í gær með liðsheildinni. Sem dæmi má nefna þá spilaði Bryndís Guðmundsdóttir sárlasin í gær en það sýnir eljuna og dugnaðinn í hópnum,” sagði Jón í samtali við Víkurfréttir. ,,Þá eru leikmenn á borð við Hrönn Þorgrímsdóttur að stíga vel upp hjá okkur en hún er dæmi um leikmann sem er farinn að láta meira að sér kveða eftir að hafa spilað lítið fram að þessu.”

 

,,Við vorum búnar að setja tóninn fyrr á  leiktíðinni með því að verða Powerademeistarar og Meistarar meistaranna. Í hvorugum leiknum gat Kiera Hardy beitt sér af fullri getu gegn okkur en það sýnir bara að maður kemur í manns stað. Hardy var stórkostleg gegn okkur í gær en liðsheild okkar vó þyngra.”

 

Sárlasin gerði Bryndís 13 stig í liði Keflavíkur í gær en TaKesha Watson hefur farið á kostum að undanförnu og setti hún niður 34 stig í gær, gaf 12 stoðsendingar, tók 9 fráköst og stal tveimur boltum.

 

Flestir leikmenn Keflavíkur sem nú skipa liðið máttu ávallt sætta sig við 2. sætið í öllum keppnum í fyrra og segir Jón það hafa haft mikil áhrif á bæði liðið og hann. ,,Eftir síðustu leiktíð voru nokkrir farnir að kalla mig John Silver,” sagði Jón og hló en honum var vart hlátur í huga alla síðustu leiktíð þegar silfrið skolaði alltaf á hans strendur.

,,Að vera alltaf svona nærri því að vinna mótiverar mann svo mikið og maður verður ennþá ákveðnari í því að lenda í 1. sæti. Auðvitað situr svona í manni og maður vill vinna alla leiki. Síðasta leiktíð hjálpaði verulega til og skýrir að sumu leyti velgengni okkar í ár,” sagði Jón sem telur sig hafa gengið í gegnum góðan skóla.

 

,,Ég var á mínu fyrsta ári sem þjálfari í úrvalsdeild kvenna í fyrra og var að læra inn á hvað maður getur gengið langt í þessu. Ég lærði t.d. í fyrra hvernig á að tapa,” sagði Jón en aðspurður hver sigurformúlan væri sem Keflavík færi eftir þessa dagana svaraði hann:

,,Liðsheildin er sigurformúlan.”

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -