spot_img
HomeFréttirJón Halldór: Grindavík er liðið til að vinna í dag

Jón Halldór: Grindavík er liðið til að vinna í dag

15:50
{mosimage}

(Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur) 

Ljóst er að eitt Suðurnesjalið mun leika til bikarúrslita í Lýsingarbikarkeppninni í kvennkörfuboltanum í ár. Grindavík og Keflavík drógust saman í undanúrslit keppninnar í dag og mætast í Röstinni annað hvort 2. eða 3. febrúar næstkomandi. Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur sagði að honum litist vel á rimmuna en hann stýrði Keflavík til silfurverðlauna í bikarnum í fyrra eftir kyngimagnaðan úrslitaleik gegn Haukum. 

,,Við töpuðum í okkar síðasta leik í Grindavík og Grindvíkingar eru klárlega liðið til að vinna í dag þar sem þær hafa unnið 10 leiki í röð,” sagði Jón í samtali við Víkurfréttir. ,,Keflavík og Grindavík eru klárlega tvö af þremur bestu liðunum í deildinni í dag en ég held samt að þetta hefði verið skemmtilegasti úrslitaleikurinn fyrir kvennakörfuna. En það verður bara skemmtilegt í Grindavík í staðinn,” sagði Jón.

Aðspurður hvort hann teldi ekki að margfaldir meistarar Hauka myndu fara nokkuð auðvelt í gegnum nýliða Fjölnis í undanúrslitunum vildi Jón ekki slá því föstu: ,,Ég er ekkert svo allt of viss um það. Málið er það að allur andskotinn getur gerst í bikarkeppninni. Haukar eru með fínt lið og það vantar ekkert upp á þar en Grindavík vann Fjölni aðeins með 13 stigum um daginn og það er helling varið í þetta Fjölnislið. Þær hafa engu að tapa og þá gerast hlutirnir yfirleitt.” 

Minnugur leiksins í fyrra í Laugardalshöll segist Jón koma reynslunni ríkari í þjálfarastarfið þetta árið. ,,Þetta var fullorðins í fyrra! Mjög skemmtilegur leikur gegn Haukum þó úrslitin hefðu ekki verið að mínu skapi, ég kem reynslunni ríkari inn í þessa bikarkeppni en síðasta ár var mitt fyrsta ár sem þjálfari í efstu deild,” sagði Jón sem er ekki kominn með hugann við undanúrslitaleikinn þar sem stór verkefni í deildinni eru á næstu grösum. 

,,Ég er ekki farinn að hugsa um bikarleikinn að svo stöddu þar sem við eigum leiki við KR, Hauka og Grindavík áður en að honum kemur. Bikarinn er samt þannig að maður þarf bara að taka þessu með stakri ró og við sjáum bara til hvort okkur takist ekki að stríða Grindavík sem hafa unnið samtals 9 leiki í röð í deild og bikar,” sagði Jón. 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -