spot_img
HomeFréttirJón Halldór: Alltaf erfitt að spilja í Ljónagryfjunni

Jón Halldór: Alltaf erfitt að spilja í Ljónagryfjunni

 
Keflvíkingar lögðu granna sína í Njarðvík í fyrstu umferð Iceland Express deildarinnar í kvöld. Fyrir leikinn var Keflvíkingum spáð efsta sætinu í spá bæði hér á Karfan.is og í spá fyrirliða og þjálfara í KKÍ spánni. Njarðvíkingar létu gestina úr Keflavík hafa fyrir hlutunum í kvöld en þjálfari Keflvíkinga, Jón Halldór Eðvaldsson, segir að sér hafi aldrei fundist sigurinn vera í hættu.
,,Ég tók ákvörðun um það að setja ungu stelpurnar mínar inn á sem hafa verið að gera góða hluti fyrir klúbbinn okkar í langan tíma. Þetta gerði ég í restina og Njarðvíkingar bitu aðeins frá sér en mér fannst sigurinn aldrei vera í hættu, það er frekar að aðrir í kringum mig hafi verið smá stressaðir. Við komumst 19 stigum yfir og þá setti ég yngri leikmenn inn í leikinn en þessir leikmenn hafa borið uppi yngriflokka Keflavíkur síðustu ár,“ sagði Jón Halldór eftir 77-82 sigur Keflavíkur í kvöld.
 
,,Ég er í skýjunum með þetta í fyrsta leik, það vantaði samt Hrund, Rannveigu og Marínu, þær eru allar meiddar, Marín og Rannveig eru með meiðsli í hásin og Hrund í smá hnévandamálum og því ákváðum við að hvíla hana aðeins. Þjálfarar beggja liða gáfu ungum leikmönnum tækifæri og gaman að sjá unga leikmenn koma og sýna sig og svo var vel mætt á leikinn. Það er alltaf erfitt að spila í Ljónagryfjunni og því var ég ánægður með að liðið hafi staðist áhlaup Njarðvíkinga,“ sagði Jón sem stýrir Keflavík gegn KR í næsta deildarleik.
 
,,Það er KR á laugardag en KR er með hörkufínt lið. Vissulega er talað um að þær hafi misst Unni Töru og Signýju en það er ótrúlega fyndið með KR og önnur lið að það er alltaf talað um hvað þau séu að missa leikmenn en það talar enginn um þá leikmenn sem vantar í Keflavíkurliðið. Hverju sem því líður mætum við bara spenntar til leiks á laugardag,“ sagði Jón Halldór.
 
Fréttir
- Auglýsing -