Jón Arnór Stefánsson hefur þegar hafið endurhæfingu og vonast til að vera kominn í gang með CB Granada í spænsku úrvalsdeildinni eftir 6-8 vikur. Karfan.is náði tali af Jóni sem sagði það áfall að hafa lent í þessum meiðslum en vonaðist til að vera fljótari að ná sér af meiðslunum.
,,Það var smá áfall að lenda í þessu, en gott að það fór ekki verr. Það rifnaði innra liðband í hnénu (MCL) og liðþófi líka. Þar sem liðbandið slitnaði ekki alveg þá þarf ég enga aðgerð. Þetta kallast 2. stigs tognun og þýðir líklega 6-8 vikur. Ég er byrjaður í endurhæfingu og styrkingu. Vonandi gengur það vel og það væri ekki verra ef þessi tími yrði styttur eitthvað,” sagði Jón og kvaðst heppinn að sleppa við krossbandaslit.
,,Ég var heppinn að sleppa við krossbandaslit því það hefði þýtt aðgerð og líklega lokin á tímabilinu fyrir mig. Það teygðist vel á krossbandinu en það hélt,” sagði Jón en Granada hefur verið óheppið með meiðsli þessa leiktíðina og liðið á botni deildarinnar.
,,Við höfum verið óheppnir með meiðsli allt tímabilið og höfum t.d. verið án back up leikstjórnanda allt tímabilið. Við lentum svo illa í því þegar leikstjórnandinn okkar meiddist og var frá nokkra leiki. Við höfum ekki náð heilu liði í heillangan tíma og vantað leikmenn en liðið hefur ekki bætt við sig, ég býst ekki við því að það breytist. Ég held líka að efnahagurinn bjóði hreinlega ekki uppá það,” sagði Jón og því ljóst að áfram verður á brattann að sækja hjá Granada.