spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaJón Axel hefur farið vel af stað í Frankfurt, en heldur NBA...

Jón Axel hefur farið vel af stað í Frankfurt, en heldur NBA drauminum lifandi “Það er mikill áhugi úr deildinni”

Jón Axel Guðmundsson, leikmaður Fraport Skyliners og íslenska landsliðsins hefur farið vel af stað þetta tímabilið í þýsku Bundesligunni. Þar fór hann fyrir liðinu er það tryggði sig áfram í undanúrslit bikarkeppninnar. Þá töpuðu þeir fyrsta leik tímabilsins gegn meisturum Alba Berlin á dögunum, en annar leikur þeirra í deild er komandi sunnudag gegn Bayern Munchen.

Karfan setti sig í samband við Jón og spurði hann út í byrjunina í Þýskalandi, aðstæður í Frankfurt am Main og drauminn um NBA.

Hvernig finnst þér tímbilið fara af stað hjá Skyliners?

“Byrjum náttúrulega á gríðarlegum erfiðum andstæðing, við erum búin að vera glíma við mikið af meiðslum i byrjun tímabils sem er alls ekki gott, en það eru allir að verða heilir núna. Fyrir utan það er tímabilið bara búið að fara vel af stað”

Hvernig kanntu við þig í Frankfurt am Main?

“Ég kann bara mjög vel við mig! En á þessum skrýtnu tímum í heiminum er maður ekkert að fara eitthvað mikið útaf heimilinu sínu nema þegar það er eitthvað nauðsynlegt”

Rosaleg byrjun á tímabilinu hjá ykkur, Alba Berlin, svo Bayern. Er betra eða verra að byrja á móti sterkum liðum?

“Ég held bara bæði og, það er gott að byrja á móti sterkustu liðunum því við sjáum strax hvað við erum að gera vel og hvað við þurfum að bæta okkur í sem lið til þess að vera upp á okkur besta í vetur”

Nú ert þú ennþá í nýliðavali NBA deildarinnar sem fer fram þann 18. Hver er pælingin á bakvið það og hefur þú verið að æfa fyrir eða tala við einhver lið?

“Pælingin er að halda nafninu mínu inni í því og vonast eftir því að verða valinn. Það eru tveir möguleikar og það er að lið eigni sér réttinn á mér og kalli mig inn næsta sumar, leyfi mér að klára hér í Evrópu fyrsta árið til að fá reynslu. Svo er það að vera draftaður og kallaður til USA sem er ólíklegra held ég eins og staðan er í dag. Hef ekki æft fyrir nein lið, þau byrjuðu á þvi í þessum mánuði og ég er búinn að vera í Frankfurt síðan í ágúst. Ég hef verið að tala við fullt af liðum og það er mikill áhugi úr deildinni, þannig það er bara bjartsýni frá mér hvort sem nafnið manns verður kallað eða ekki, þá mun ég alltaf reyna næsta sumar. Ef nafnið manns er kallað þá er náttúrulega bara draumur að verða að veruleika”

Ferð vel af stað persónulega á tímabilinu, er þetta það sem búast má við?

“Já, hvert sem ég fer þá reyni ég alltaf að gera allt það sem ég get til þess að vera spila upp á mitt besta og margir eru að tala um að ég sé einhver rookie hér því þetta er fyrsta almennilega árið mitt í Evrópu, en ég er frá Evrópu og hef spilað upp öll yngri landsliðin og með A-landsliðinu. Þannig ég þekki Evrópuboltan gríðarlega vel líka. Þannig ég lít ekkert á mig sem einhvern rookie, mér finnst ég geta verið að spila á hærra leveli. Þannig hvern einasta dag reyni ég að sýna það, svo ég komist í NBA eða Euroleague sem fyrst”

Hverjar eru væntingar liðsins fyrir tímabilinu og hverjar eru þínar væntingar fyrir tímabilinu?

“Væntingarnar eru þær bara að verða betri með hverjum einasta degi sem við erum saman og það mun skila góðum árangri hjá okkur! Auðvitað viljum við komast í playoffs og svona, en ef við bætum okkur sem lið á hverjum degi þá náum við því auðveldlega”

Fréttir
- Auglýsing -