Jón Arnór Stefánsson og félagar í CAI Zaragoza hófu keppni í Eurocup í gærkvöldi með nokkuð þægilegum sigri á liði Belfius Mons frá Belgíu. 73:56 var lokastaða leiksins og eins og tölurnar gefa tilkynna þá var þetta kannski ekkert körfubolti á háu plani. “Ég hef alveg tekið þátt í skemmtilegri leikjum. Þetta var lauflétt fyrir okkur og þeir áttu aldrei séns.” sagði Jón Arnór í samtali við Karfan.is eftir leik í gær.
“Það er góð tilfinning að vera byrjaður í Evrópukeppni með Zaragoza. Ég hef fengið það á tilfinninguna að fólk er mjög stolt hér í borginni að við séum að spila í Evrópukeppni. Eftir frábært ár í fyrra erum við að uppskera mikinn áhuga frá fólkinu og það er frábært.” sagði Jón Arnór einnig.
“Það var mikilvægt fyrir okkur að vinna þennan leik og hefja þetta á sigri. Við ætlum okkur áfram í þessari keppni. Ég myndi segja að það séu Róm og svo Alba Berlin sem eru okkar helstu andstæðingar í þessum riðli. Það er ekkert sjálfgefið að mæta á útivöll í þessum riðli og ná í sigur.” sagði Jón að lokum.
Hér fyrir neðan er hægt að horfa á leikinn í heild sinni en ekkert hljóð er með þessari myndbandsupptöku.



