10:17
{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson)
Lottomatica Roma höfðu sinn fimmtánda sigurleik í Ítölsku deildinni þegar að þeir sigruðu næstneðsta lið deildarinnar Legea Scafati 82-73. Jón Arnór skoraði 6 stig á 22 mínútum. Frá þessu er greint á www.kr.is/karfa
Gestirnir komust yfir í byrjun 6-11 en Jón Arnór skipti inná þegar að um 5 mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta. Heimamenn náðu tökum á sóknarleik sínum og leiddu 21-20 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta byrjuðu gestirnir í Legea Scafati með 0-6 og leiddu 21-27, David Hawkins jafnaði leikinn með þriggjastigakörfu 31-31 og eftir það náðu Roma mest tíu stiga forystu 46-35 en góð barátta gestanna hjálpaði þeim að minnka muninn og staðan í hálfleik 48-41. Jón Arnór náði ekki að skora í fyrri hálfleiknum.
Heimamenn í Lottomatica Roma byrjuðu síðari hálfleikinn vel og komust í 54-41, þeir héldu þetta tíu til þrettán stiga forystu. Jón Arnór kom aftur inná í sjöttu mínútu þriðja leikhluta en staðan 64-54 eftir þrjá leikhluta. Í fjórða leikhluta kom okkar maður Jón Arnór liðinu þrettán stigum yfir 67-54 með góðri þriggjastigakörfu en heimamenn komust í 71-54. Legea Scafati náðu að minnka muninn í sex stig 72-66 og 77-73, Jón Arnór skoraði þá mikilvægan þrist og kom heimamönnum í 80-73 þegar að um 50 sekúndur voru eftir. Lokatölur 82-73.
Þetta var fimmtándi sigur Lottomatica Roma í deildinni og eru þeir jafnir Premiata Montegranaro og Air Avellino í öðru til fjórða sætinu með 15-7. Næsti leikur liðsins í deildinni er gegn Pierrel C. d'Orlando 17. febrúar en það er bikarkeppnin sem er næst á dagskrá, Roma leika gegn Angelico Bologna 7. febrúar á sama tíma og KR heimsækja Njarðvíkinga.



