"Það er búið að vera mikið álag og æfingarnar krefjandi en allt gengið eins og í sögu þannig, hef aðlagast öllu mjög vel og liðið lítur vel út" sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við Karfan.is nú í morgun þegar við höfðum samband við kappann. Jón Arnór gekk til liðs við Valencia nú þetta tímabilið á þriggja mánaða samningi sem hann vonast eftir að verði svo framlengdur út tímabilið. Liðið lék svo til séð opnunarleik sinn í gær þó svo að um æfingaleik hafi verið að ræða. Liðið sigraði þá Tenerife með 100 stigum gegn 77.
Jón Arnór sagði Eurobasket enn standa í sér að vissu leyti og að hnéð sem var að angra hann þar sé enn ekki orðið nægilega gott. " Hnéð er að angra mig enda æfingaálagið gríðarlegt á undirbúningstímabilinu fögnum þegar því lýkur."
Sem fyrr segir Jón aðeins á þriggja mánaða samningi en Jón segir talsmenn liðsins tala eins og hann sé að fara að klára tímabilið með liðinu. "Ég held það hafi mikið að segja með framhaldið hvernig ástandið á hnénu verður. Þeir hinsvegar hafa talað og tala alltaf eins og ég sé að fara klára árið með þeim. En það þarf þá að taka ákvörðun um hvort ég fari í speglun osvfr, það er óhjákvæmilegt ef ég á að geta klárað tímabilið."
Eurobasket í Berlín tók vissulega toll á okkar mann en þar spilaði hann gríðarlega vel þrátt fyrir að vera nánast á öðrum fætinum í gegnum erfitt sjö daga prógram. "EM situr vissulega ennþá í manni, var á tímabili orðinn hræddur um að finna ekki leikgleðina aftur eftir mótið það er búið að vera mjög erfitt að peppa sig upp fyrir æfingaleiki undanfarið en þetta er allt að koma. Opnunarleikurinn í gær var góður þar sem liðið var kynnt og stemningin skemmtileg þá kom fiðringurinn í magann aftur. " sagði Jón að lokum.
Valencia hefur leik gegn Real Madrid á sunnudaginn kemur.
Mynd: Jón Arnór í leik með Malaga gegn Barcelona á síðasta tímabili



