20:07
{mosimage}
Jón Arnór Stefánsson átti sannkallaðan stórleik í kvöld þegar lið hans Lottomatica Roma heimsótti Evrópumeistara Panathinaikos. Jón Arnór var stigahæstur Romamanna í naumu tapi 83-86 þar sem Roma átti góðan möguleika á að vinna.
Romamenn byrjuðu betur í leiknum og leiddu 44-35 í hálfleik en áttu afleitan þriðja leikhluta þar sem Panathinaikos skoraði 27 stig gegn 13 Roma. Í fjórða leikhluta komst Roma fram úr með nokkrum þriggja stiga körfum Jóns Arnórs og þegar rúm mínúta er eftir eru Roma menn 4 stigum yfir 79-75. Í lokin fer svo leikurinn fram á vítalínunni og á síðustu mínútunni hitti Jón Arnór úr 4 vítum af 4. Þar á meðal er brotið á Jóni Arnóri og dæmd óíþróttamannsleg villa á Michael Batiste. Jón Arnór setti bæði vítin niður og staðan 82-81 fyrir Panathinaikos. David Hawkins missti svo boltann og eftir það var þetta bara vítakeppni milli liðanna sem lauk með 2 vítum frá Sarunas Jaskevicius.
Jón Arnór skoraði alls 25 stig og var stigahæstur Romamanna, hann hitti úr 5 af 11 þriggja stiga skotum sínum, 8 af 10 vítum, tók 3 fráköst og stal 3 boltum. Hann lék í 30 mínútur og 46 sekúndur. Næstur Jóni Arnóri í stigaskorinu hjá Roma kom Erazem Lorbek með 18 stig. Vassilis Spanoulis var stigahæstur heimamanna með 15 stig. Konstantinos Tsarsaris sem lék með Grindavík um árið skoraði 7 stig í leiknum.
Þremur öðrum leikjum sem fram fóru í Meistaradeildinni í kvöld er lokið. Montepaschi Siena sigraði Olimpija 80-52, Aris TT Bank vann Unicaja Malaga 87-83 og Cibona vann Efes Pilsen 93-85.
Þá eru tveir aðrir leikir í kvöld. Staðan í hálfleik í leik Virtus VidiVici og Zaligris er 37-39 og í leik Partizan Igokea og Barcelona er staðan 42-41 í hálfleik.
Mynd: www.virtusroma.it



