spot_img
HomeFréttirJón Arnór: Lærdómsríkt og skemmtilegt ár!

Jón Arnór: Lærdómsríkt og skemmtilegt ár!

Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í Malaga hefja leik á morgun í úrslitakeppni spænsku deildarinnar gegn liði Laboral Kutxa.  Malaga leiddi megnið af deildinni á toppnum en gaf eftir á endasprettinum og lokaði árinu í þriðja sæti á eftir risunum tveimur, Barcelona og Real Madrid. Leiktíðin hefur svo sannarlega verið upp og ofan, liðið tapaði ekki leik framan af keppni og var að ná fínum úrslitum í Evrópukeppninni en svo fór að halla undan fæti. Liðsmaður Jóns, Jayson Granger var í lok móts valin í 5 manna lið deildarinnar og viss sárabót fyrir slakan endi.  En nú hefst ný keppni og Malagamenn fara brattir inní það ef marka má Jón Arnór Stefánsson. 

 

"Ég er mjög ánægður með veturinn og stoltur að hafa leitt deildina mest allann tímann. Það voru samt óneitanlega vonbrigði að ná ekki að halda öðru sætinu og ná ekki að spila betur gegn Barcelona á okkar heimavelli sem með sigri hefði tryggt okkur heimavallarétt fram að úrslitum. Við tókum dýfu sem lið undir lok tímabils og töpuðum 4 af síðustu 5 leikjunum og það kostaði okkur fyrsta og annað sætið. Persónulega var þetta mjög lærdómsríkt og skemmtilegt ár og gaman að taka þátt í toppbaráttunni aftur. Ég var að leysa stöðu 1,2 og 3 allt tímabilið og er ánægður með hversu stóra rullu ég var í raun að leika fyrir þetta lið allt árið."

 

En hvernig metur Jón möguleika Malaga í úrslitakeppninni?
"Við erum með mjög sterkt lið með mikla breidd sem á möguleika að ná langt í þessari úrslitakeppni. Við eigum mjög erfiða andstæðinga í fyrstu umferð og þurfum að spila á okkar besta leveli til að komast í gegnum hana. Við erum allir spenntir að byrja skemmtilegasta tíma ársins.Við höfum spilað 4 sinnum í ár á móti þessu liði og unnið 3. Þeir spila mjög hraðann sóknarbolta og leikstjórnendur þeirra eru báðir stórhættulegir sóknarmenn sem geta splundrað upp vörninni hvenær sem er. Þeir spila mjög hraðann bolta og vilja taka snögg skot í sókninni, þannig að við þurfum að hægja á þeim og stjórna hraðanum í leiknum og stoppa hraðaupphlaupin þeirra. Ef við spilum vörnina sem hefur komið okkur þetta langt þá hef ég ekki áhyggjur."

 

Jón Arnór tognaði á nára í síðasta leik liðsins gegn Bilbao á tímabilinu og verður frá í einhverja viku og býst við því að hvíla í það minnsta fyrsta leik úrslitakeppninar. "Þetta er skelfilegur tími til að meiðast því aðal veislan er að hefjast.Mér leið hinsvegar strax miklu betur daginn eftir leik og ég er venjulega fljótur að ná mér án þess að ég geti gefið eitthvað út formlega. Við stefnum á að ég nái leik númer 2 en það þarf bara að koma í ljós." sagði Jón að lokum. 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -