Jón Arnór Stefánsson er annar körfuknattleiksmaður íþróttasögunar til að vera Íþróttamaður Íslands. Þetta var kunngjört nú rétt í þessu og var það Ingigerður Jónsdóttir móðir Jóns sem tók við verðlaunum Jóns þar sem Jón Arnór er á Spáni við störf. Áður hafði annar KR-ingur, Kolbeinn Pálsson unnið til þessara verðlauna en það var árið 1966. Jón Arnór og Ólafur Stefánssynir eru þar með fyrstu bræður til að hljóta þessa nafnbót.
Jón Arnór hlaut 435 atkvæði en mest var hægt að fá 480 stig. Í öðru sæti varð knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Swansea með 327atkvæði og í þriðja sæti hafnaði handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson leikmaður Barcelona með 303 atkvæði en þetta er i 59. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir vali á íþróttamanni ársins.
Að auki var karlalandsliðið valið lið ársins 2014 en nánar verður greint frá þessu öllu seinna í kvöld.



