8:41
{mosimage}
Jón Arnór Stefánsson, leikmaður Lottomatica Roma á Ítalíu, hefur leikið vel í ítölsku deildinni og var stigahæstur í síðasta leiksins þegar liðið tapaði 78-86 fyrir Premiata Montegranaro á útivelli.
Jón Arnór skoraði 14 stig á 24 mínútum í leiknum og hitti úr öllum fimm skotunum sínum. Þetta var þriðji deildarleikurinn í vetur sem Jón Arnór er stigahæsti leikmaður Lottomatica en hann var einnig stigahæstur í sigurleikjum á Eldo Napoli 11. október (16 stig) og Armani Jeans Milano 18. nóvember (17 stig).
Jón Arnór hefur verið sjóðheitur á útivelli í vetur því hann hefur hitt úr 51,5 prósent þriggja stiga skota sinna í átta útleikjum liðsins. Jón Arnór hefur sett niður 2,1 þriggja stiga körfu að meðaltali í leik í þessum leikjum og er með 51,9 prósent heildarskotnýtingu utan Rómar.
Í heimaleikjunum sjö hefur hann hitt úr 33,3 prósentum þriggja stiga skota sinna og skorað 1,7 þrista að meðaltali í leik og heildarskotnýtingin hans þar er 10 prósentustigum lakari en hún er í útileikjunum. Jón Arnór hefur skorað 10,3 stig að meðaltali á 20,4 mínútum í útileikjum en er með 9,9 stig á 26,7 mínútum í heimaleikjunum.
Jón Arnór og félagar eiga annan útileik í kvöld þegar þeir sækja Scavolini Spar Pesaro heim. Jón Arnór hefur verið utan byrjunarliðsins í síðustu þremur leikjum en nýtt bæði, sinn spilatíma og sín skot, vel í þessum leikjum. Hann er með 23,4 stig á hverjar 40 mínútur í þessum leikjum og hefur sett niður 72,2 prósent skota sinna og því er það ekki ólíklegt að Jón Arnór verði kominn aftur í byrjunarliðið fyrir leikinn í kvöld.
Mynd: www.virtusroma.it



