CAI Zaragoza og Real Madrid hefja einvígi sitt í 8-liða úrsitum ACB deildarinnar á Spáni í kvöld. Fyrirfram teljast Madrídingar mun sterkari og segir Jón Arnór Stefánsson leikmaður Zaragoza brekkuna vera bratta.
„Það voru vissulega vonbrigði að klára tímabilið eins og við gerðum, hefðum getað endað ofar í deildinni og átt betri möguleika á að komast áfram í playoffs. Rimman við Real er framundan og menn bara afslappaðir og ákveðnir í að gefa sig alla í verkefnið, við erum lausir við alla pressu og ættum að geta leikið góðan bolta og kannski strítt þeim eitthvað,“ sagði Jón sem þekkir það að mæta Madrid í úrslitakeppninni en liðin mættust í undanúrslitum á síðustu leiktíð.
„Við getum vel spilað með þeim en brekkan er brött, þetta verður erfið rimma, fer ekkert í felur með það, en það ætlar enginn að gefast upp. Við berjumst og látum finna fyrir okkur og sjáum hvað það skilar okkur. Þetta er skemmtilegasti tími ársins og það sem maður hefur unnið að alla þessa mánuði, að fá að njóta þess að spila í úrslitakeppninni.“
Fyrsti leikur Real og Zaragoza er í kvöld kl. 21 að staðartíma eða kl. 19:00 að íslenskum tíma.



