spot_img
HomeFréttirJón Arnór á förum frá Róm?

Jón Arnór á förum frá Róm?

14:00

{mosimage}

Sigurður Elvar á Morgunblaðinu spjallaði við Jón Arnór fyrir leik 4 milli Siena og Roma. Þetta birtist miðvikudaginn 11. júní.

FRAMTÍÐ Jóns Arnórs Stefánssonar hjá ítalska körfuknattleiksliðinu Lottomattica Roma er  óráðin en Jón hefur ekki rætt með formlegum hætti við forráðamenn liðsins um framhaldið í nokkrar vikur. Jón segir að mikil óvissa sé um hvaða leikmenn verða áfram í herbúðum liðsins og allt eins líklegt að flestir af burðarásum þess séu á förum ásamt þjálfaranum Jasmin Repesa.  „Ég var einn af þeim fyrstu sem þeir töluðu við í desember og á þeim tíma var útlitið allt annað  en það er í dag. Það átti að halda kjarna liðsins og byggja upp meistaralið. Forráðamenn Roma  ætluðu að setja mikla fjármuni í þetta lið og gera enn betur. Frá þeim tíma hafa komið upp  vísbendingar um að margir af lykilmönnum liðsins séu að hugsa sér til hreyfings. Erazem Lorbek  er í „eigu“ Larrys Birds og félaga hans í Indiana Pacers í NBA-deildinni. Hann gæti því farið þangað og Roko Ukic, leikstjórnandinn frá Króatíu, var valinn á sínum tíma af Toronto Raptors í NBA. Hann gæti líka verið á förum. Og það sem skiptir mestu máli er að Repesa hefur verið orðaður við ýmis lið að undanförnu þrátt fyrir að hann sé með samning út tímabilið 2009-2010,“ sagði Jón Arnór við Morgunblaðið í gær.

Ber mikla virðingu fyrir þjálfaranum
Hann er ánægður með að leika undir stjórn Repesa. „Já, mér hefur gengið vel hjá honum. Ég veit hvað hann vill og ég ber mikla virðingu fyrir honum sem þjálfara. Það er mitt mat að til þess að byggja upp gott lið þurfi kjarni liðsins að hafa leikið saman í nokkur ár áður en hægt er að landa meistaratitli. Það hafa þeir gert í Siena og ég hélt að Roma hugsaði með svipuðum hætti. Eins og staðan er í dag þá er mikil óvissa um framhaldið hjá mér. Samningurinn rennur út í lok leiktíðar og umboðsmaður minn hefur verið að kanna aðra möguleika. Það gæti því farið svo að ég færi frá Roma í sumar en það á eftir að koma í ljós. Mér líður vel á þessum stað en ef ég lít á liðið og það sem er að gerast hjá því getur það verið betri kostur að fara eitthvað annað,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.

Jón Arnór og félagar sigruðu Siena í fjórða leiknum um ítalska meistaratitilinn í gærkvöld.

Morgunblaðið

Mynd: La Gazzetta 

Fréttir
- Auglýsing -