11:46
{mosimage}
Undanfarna daga hafa verið fréttir af því að Njarðvíkingar væru komnir með erlendan leikmann til liðs við sig. Kevin Jolley mætti til landsins á föstudag og hafa Njarðvíkingar unnið alla helgina í að leikheimild en það hefur ekki tekist.
Sigurður H. Ólafsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sagði í spjalli við karfan.is „Þolinmæði okkar er á þrotum og líkast til fer hann heim í dag eða á morgun. Hann hefur ekki enn getað fengið sig lausan frá liði sínu í Portúgal, þar sem hann þarf að kaupa upp samninginn sinn. Við vorum fullvissaðir að allt væri á hreinu þegar hann lagði af stað til okkar á föstudaginn. Við vissum að við tækjum ákveðna áhættu að keyra þetta í gegn á föstudaginn, en aðalatriðið er að Njarðvík þarf ekki að bera neinn kostnað vegna þessa, nema náttúrulega allan þann tíma sem þetta hefur tekið frá okkur sl. daga.”
Aðspurður um hvort þeir væru að leita að öðrum erlendum leikmanni sagði Sigurður: „Eins og staðan er núna munum við bara anda rólega og ekkert víst að einhver annar komi til okkar. Við höldum bara áfram að skoða okkar mál eins og við höfum verið að gera síðan í haust. Ef eitthvað bitastætt dettur inn á borð til okkar á góðum kjörum er aldrei að vita hvað við gerum því við erum mannfáir sem margir gera sér ekki grein fyrir. Og bara sem dæmi, að um næstu helgi verður "turnering" hjá 11. flokki karla, en þá fer einnig fram undanúrslitaleikurinn við Stjörnuna. Fjórir leikmenn í síðustu leikjum m.fl. eru í 11. flokki! Þessir strákar eru því að spila fjögur íslandsmót í vetur!! Með 11. flokki, drengjaflokki, B-liði meistaraflokks og meistaraflokki. ”



