spot_img
HomeFréttirJólaviðtalið: Luc Longley

Jólaviðtalið: Luc Longley

{mosimage}

 

 

Fyrsti Ástralinn til þess að leika í NBA deildinni var Luc Longley og hann er einmitt viðmælandi Karfan.is í jólaviðtali síðunnar. Ritstjóri síðunnar, Jón Björn Ólafsson, var staddur í Ástralíu fyrir skemmstu og hitti Luc á heimili hans í Fremantle sem er skammt utan við Perth í Vestur-Ástralíu. Luc hefur búið í Ástralíu síðan hann lagði skóna á hilluna árið 2001 eftir að ökklameiðsli höfðu orðið honum um megn. Luc er einna þekktastur fyrir að hafa orðið þrefaldur meistari með Chicago Bulls þar sem ekki ómerkari menn á borð við Michael Jordan og Scottie Pippen voru liðsfélagar hans.

 

,,Ég kom aftur heim til Ástralíu skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar þann 11. september 2001 og hef tekið að mér ýmis verkefni síðan ég kom heim. Það stærsta þessa stundina er barnauppeldið,” sagði Luc sem á tvær ungar stelpur en hann skildi fyrir nokkrum árum við barnsmóður sína. Þá á Anna, kærasta hans, tvö börn úr fyrra hjónabandi svo það er mikið um að vera á þessu 1500 fermetra heimili hjá Luc, Önnu og börnunum fjórum.

 

Eftir 11 ár í NBA deildinni þá þarf Luc ekki að vera í 9-5 starfi en hann hefur engu að síður haft mikið fyrir stafni síðan hann hætti í NBA deildinni og er nú formaður í nefnd hjá Health Way. Starf hans felst í því að ráðstafa skatttekjum af tóbakssölu í Vestur-Ástralíu og eru peningarnir notaðir í forvarnarstörf og ýmislegt annað sem tengist því að fyrirbyggja reykingar. Starfið innir hann af hendi til þess að hafa eitthvað að gera, einhverjar skyldur.

 

{mosimage}

 

,,Síðan ég kom heim hef ég varið miklum tíma í að kynnast heimalandinum mínu og ver góðum tíma með börnunum. Ég stefndi alltaf að því að koma heim og ala börnin mín upp í Ástralíu. Ég elska hafið og á nokkra báta og hef gaman af því að kafa. Því tel ég að Fremantle hafi verið góður staður til að koma fjölskyldunni fyrir,” sagði Luc en Fremantle er einn af elstu áströlsku bæjunum og er mikið sjávarþorp, ekki ósvipað flestum bæjum og sveitarfélögum á Íslandi.

 

Byrjaði hjá Minnesota

Luc Longley, eða Lucien James Longley eins og hann heitir fullu nafni, var fyrsti ástralinn til þess að vera valinn í NBA deildina úr nýliðavalinu. Hann var fyrstur Ástrala til að leika í deildinni og fyrstur sinnar þjóðar til þess að verða NBA meistari. ,,Ég var valinn nr. 7 í nýliðavalinu til Minnesota en þar á undan var ég í fjögur ár í Unversity of New Mexico svo ég hafði séð snjó áður en ég kom til Minnesota. Reyndar varð ég fyrir smávægilegu menningarsjokki þegar þangað var komið því fólk og menningin þar var mjög frábrugðin því sem ég átti að venjast. Ég átti ekki góð ár í körfunni hjá Minnesota en á seinna árinu mínu þar kom Kevin McHale til liðsins sem einn af stjórnendum og með hans hjálp kom ég meiri reglu á minn leik,” sagði Luc sem bar gömlu Celtics-stjörnunni söguna vel. Eftir eitt tímabil með McHale sem sérlegan aðstoðarmann sinn var Luc skipt yfir til Bulls og þar upphófst ferill hans fyrir alvöru að hans sögn.

 

Reifst við Jordan

,,Tími minn hjá Bulls var mjög spennandi. Ég var ekkert hrifinn af boltanum sem var leikinn hjá Timberwolves á þessum tíma,” sagði Luc en þegar hann kom til Bulls voru John Paxon og Bill Cartwright að ljúka sínu skeiði með liðinu. ,,Þegar ég kom til liðsins hafði Jordan lagt skóna á hilluna og Scottie Pippen var fyrirliði. Það ár töpuðum við í úrslitakeppninni gegn New York en næsta ár á eftir urðu nokkrar breytingar hjá liðinu og Jordan tók aftur fram skóna. Það ár, þegar Jordan kom aftur, mættum við Orlando í úrslitum austurstrandarinnar og töpuðum þar sem Shaq fór á kostum,” sagði Luc sem í lokaleiknum brenndi af mikilvægu skoti sem kostaði hann heljarinnar rifrildi við goðsögnina Jordan. ,,Við rifumst vel og lengi eftir þetta en við fundum á endanum leið til þess að líka vel við hvorn annan,” sagði Luc og hló. Eftir að hafa tapað gegn Orlando kom Rodman það sumar til liðsins og upp hófst næsta þriggja ára sigurganga liðsins.

 

Lærdómsríkur tími

Luc Longley varð NBA meistari með Chicago Bulls þrjú ár í röð og hans fyrsti titill kom tímabilið 1995-1996. Luc segir tímann hjá Bulls hafa verið mjög lærdómsríkan og orðið atvinnumaður öðlaðist allt annan skilning í hans huga hjá Bulls en það hafði áður gert. ,,Phil Jackson, þjálfari liðsins, krafðist mikils af okkur öllum. Ég lagði öll áhugamál til hliðar og flutti nánast inn í líkamsræktarstöðina og styrkti mig mikið á skömmum tíma. Einnig fór ég að ,,stúdera” leikinn mikið og horfði á mikið af leikjum sem við vorum að spila,” sagði Luc og bætti við að það hefði staðið Bulls liðinu fyrir þrifum hversu miklar og erfiðar æfingar liðsins voru. ,,Æfingarnar voru oft mun erfiðari en leikirnir sjálfir. Æfingavenjur okkur voru mjög agaðar og Phil Jackson fann öllum leikmönnunum hlutverk þar sem þeir blómstruðu. Ég hef aldrei áður verið í liði sem hefur æft jafn vel og mikið og Bulls og það var algerlega grunnurinn að góðu gengi liðsins.”

 

{mosimage}

 

Triangle offense – þríhyrningssóknin

Einkennismerki Bulls á þessum tíma, að því frátöldu að hafa Jordan innanborðs, voru þau að liðið spilaði svokallaða þríhyrningssókn sem var og er hugarfóstur Tex Winter sem þá starfaði hjá liðinu. ,,Ég elska þríhyrningssóknina og hún var þannig gerð að það var nánast ómögulegt fyrir vörnina að lesa þessar sóknir. Ég fann mig vel í þessu sóknarkerfi því ég var ágætur skotmaður, hafði þokkalegt auga fyrir sendingum og fína yfirsýn á vellinum,” sagði Luc en í þríhyrningssókninni þarf stóri maðurinn m.a. að vera fær um að geta sett niður stökkskot í teignum. ,,Vörnin getur ekki beitt þessu sóknarkerfi þrýstingi því þríhyrningssóknin er hvarfagjörn eða getur s.s. brugðist mjög vel við flestum varnartilbrigðum.”

 

Sem miðherji í NBA deildinni voru þau ófá tröllin sem Luc þurfti að glíma við en sjálfur er hann 218 sm að hæð og vegur um 130 kíló. Hver skyldi þó hafa verið erfiðasti andstæðingurinni?

,,Shaquille O´Neal er án efa sá sterkasti sem ég hef leikið gegn. Þegar ég var að dekka Shaq þá fékk maður að kenna á því en hann fékk nú alveg að finna fyrir mér. Strákurinn er svakalegt skrímsli að stærð og styrk og ef hann bara vissi hversu ótrúlega kraftmikill hann er þá væri hann mun öflugri. Annars kann ég vel við Shaq og hann er drengur góður, grípur ekki gæsina þegar færi gefst t.d. á ódýrum olnbogaskotum eins og svo margir gera. Þó verð ég að segja að Hakeem Olajuwon sé sá erfiðasti sem ég hef leikið gegn. Hann var mjög snöggur og úrræðagóður. Einnig var David Robinson erfiður viðureignar.”

 

Talan 13

Luc lék alltaf númer 13 í NBA deildinni en hann segir þessa tölu boða lukku í hans fjölskyldu. ,,Pabbi lék alltaf nr. 13 þegar hann var í boltanum á sínum tíma og góðir hlutir hafa gerst í minni fjölskyldu þann þrettánda. Ég leikið nr. 13 frá því að ég man eftir mér.

 

Brást aldrei áhorfendum

Undirritaður gat ekki á sér setið og otaði einni klisjunni að Luc Longley. Hvernig… og Luc kláraði setninguna fyrir mig… var að leika með Jordan?

,,Það var gott að spila með honum, hann gerði leikinn einfaldan sökum hæfileika sinna. Öll lið urðu að einbeita sér mikið að honum í vörninni og Jordan krafðist gífurlega mikils af liðsfélögum sínum. Hægt er að segja að í 3 af hverjum 4 leikjum var ég að spila vel og Pippen að spila vel í 4 af 5 leikjum en Jordan átti eiginlega aldrei slæman leik. Það kom fyrir að hann hafði hægt um sig en svo gerði hann kannski 20 stig í fjórða leikhluta. Jordan átti aldrei slæman leik og það heillaði mig mest við hann. Hann vissi að áhorfendur voru komnir til að fylgjast með honum og hann vildi ekki bregðast þeim. Hann var mjög ,,hardcore.”

 

Phil Jackson í heimsókn

Luc er enn í góðu sambandi við fyrrum þjálfara sinn Phil Jackson og segir Phil hafa gert nánast óraunhæfar kröfur til sín hjá Bulls en í verðlaun hafi hann fengið traust þjálfarans og mikinn spilatíma. ,,Við erum enn miklir vinir í dag og hann hefur komið að heimsækja mig og var t.d. hjá mér þegar Rudy Tomjanovich hætti hjá Lakers. Um leið fór síminn að hringja hjá Phil svo það var lítið úr heimsókninni,” sagði Luc. Sjálfur þjálfar Luc stúlknaliðið í Perth sem dætur hans leika með en hann hefur ekkert hugað að þjálfun atvinnuliða. ,,Það er fjarri því að góður leikmaður geti orðið góður þjálfari. Þetta eru tvenn ólík störf sem krefjast mikils af manni og persónulega hef ég ekki trú á þjálfurum sem hafa nýlega lagt skóna á hilluna,” sagði Luc.

 

Luc Longley lauk sínum ferli hjá New York Knics og varð að hætta sökum þrálátra ökklameiðsl. Luc segir mikið um truflanir í stóra eplinu því þar sé hægt að hafa margt fyrir stafni og svo sé þar gríðarlegt álaga á leikmenn íþróttaliða í borginni þar sem aðdáendur liðanna krefjist mikils af sínum mönnum. Þó lukum við okkar boltaspjalla á fyrsta titili hans með Bulls sem Luc sagði að hefði verið sá eftirminnilegasti. ,,Þetta var mín besta úrslitarimma og við lékum gegn Seattle með Payton og Kemp innanborðs og það var mitt hlutverk að hafa gætur á Kemp sem þá átti ekki í teljandi vandræðum með að hoppa liggur við upp á körfuna. Ég hugsa engu að síður ekki mikið um þetta, titlana þrjá, hef t.d. aldrei horft aftur á þetta á spólu. Ég ætti að fara að drífa mig í því,” sagði Luc hress í bragði

 

Ráð til ungra leikmanna

,,Ekki vera feimin við að leitast eftir snertingu og átökum í körfubolta, hafið þetta einfalt og æfið grunnatriðin allan ykkar feril. Hjá Bulls voru allar æfingar hjá okkur þannig að fyrstu 15-20 mínúturnar notðum við ekki bolta heldur einbeittum okkur að fótavinnu og fleiri grunnatriðum þar sem maður þarf ekki að notast við bolta. Síðan kom boltinn inn og það sama tók við, grunnæfingar. Þegar grunnatriðin eru orðin sterk hjá þér þá er hægt að fara einbeita sér að því að leika leikinn. Margir eru of uppteknir af því að vera með sirkusatriði. Öll trixin fara út um gluggann þegar þú ert að leika frammi fyrir 30-40 þúsund manns sem eru gjörsamlega að fara yfir um í stúkunni af látum,” sagði Luc að lokum.

 

Nokkrar staðreyndir um Lucien James Longley:

-Fæddur 19. janúar árið 1969

-Sigursælasti körfuknattleiksmaður Ástralíu

-Varð þrívegis NBA meistari með Chicago Bulls

-Lék með Jordan og Pippen, Phil Jackson sem þjálfari

-Fyrsti Ástralinn til þess að leika í NBA deildinni

-Hefur leikið 87 leiki í úrslitakeppni NBA deildarinnar

-218 sm að hæð og vegur um 130 kg

-Tímabilið 97-98 var hans besta í tölfræðinni með 11,4 stig að meðaltali í leik, 5,9 fráköst og þá lék hann 58 leiki í deilarkeppninni.

 

Efsta og neðsta mynd: [email protected]

 

Efsta mynd: Longley í bakgarðinum heim hjá sér

Neðsta mynd: Luc Longley og Jón Björn Ólafsson, ritstjóri karfan.is

Aðrar myndir – veraldarvefurinn

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -