spot_img
HomeFréttirJólapakkinn í ár - slúður og stuttar fréttir úr NBA

Jólapakkinn í ár – slúður og stuttar fréttir úr NBA

01:26:24
{mosimage}Francis á ferðinni
Steve Francis, bakvörðurinn knái sem hefur vakið meiri athygli sem vandræðagemsi í meiðslaveseni en sem hinn frábæri leikmaður sem hann gæti verið, hefur samið við Memphis Grizzlies þar sem hann mun reyna að endurreisa feril sinn úr öskustónni. Hann kemur frá Houston fyrir valrétt í annari lotu, en honum fylgja einnig annarrar lotu valréttur og reiðufé.

Francis átti sín bestu ár einmitt hjá Houston, en eftir að hafa orðið sundurorða við mann og annan í Houston og Orlando lenti hann í ógæfupyttinum sem kallaðist NY Knicks undir stjórn Isiah Thomas. Þar meiddist hann illa og hefur ekki borið sitt barr síðan.

Eftir að hann kom aftur til Houston lék hann 10 leiki áður en meiðslin tóku sig upp aftur.

Utah í tjóni
Utah Jazz eru í tómum vandræðum með meiðsli hjá lykilmönnum. Ekki nóg með að Deron Williams hafi misst vel framan af vetri, heldur heltist Carlos Boozer úr lestinni um leið og Williams náði sér. Nú hafa þeir Mehmet Okur og Paul Millsap, sem hefur leyst Boozer af af stakri snilli, einnig bæst á listann.

Utah mætir Dallas á föstudag.

Fleira hér að neðan…

Hornets og heilsan
Annað lið sem á í erfiðleikum vegna meiðsla er New Orlean Hornets þar sem Peja Stojakovic er frá í óákveðinn tíma vegna bakeymsla og Antonio Daniels, varamaður Chris Paul, er einnig frá vegna hnémeiðsla og er óvíst hvenær hann snýr aftur. Þó er vonast til að þeir snúi aftur eftir hátíðirnar.

Gamall og góður á parketið á ný?
Sögusagnir um endurkomu Dikembe Mutombo hafa farið fjöllum hærra að undanförnu. Þessi aldni meistari, 43ja ára að aldri, gerði garðinn frægan með liðum eins og Denver, Atlanta og nú síðast Houston, en er nú orðaður við meistara Boston Celtics.

Mutombo sem var valinn í nýliðavalinu 1991, er 17. á NBA-listanum yfir flest fráköst á ferlinum, annar í vörðum skotum. Hann var valinn varnarmaður ársins í NBA 4 sinnum (95, 97, 98, 01), sem er met og tók þátt í átta stjörnuleikjum, þar af þremur í byrjunarliði.

Þótt Mutombo væri happafengur fyrir Boston og í raun hvert lið sem hefði um 10 mín til að fylla upp í í miðherjastöðunni, er líklegast að hann haldi áfram hjá Houston ef til þess kemur.

Brown til Phoenix
Phoenix hafa fengið til sín bakvörðinn Dee Brown. Brown, sem var valinn í nýliðavalinu 2006, var látinn taka pokann sinn hjá Washington fyrr í vetur og verður sennilegast þriðji leikstjórnandi á eftir Steve Nash og Leandro Barbosa.

Oklahoma City Thunder hafa gert miðherjanum Nenad Krstic tilboð um að ganga til liðs við kjallaraliðið í NBA, en þessi fyrrum leikmaður NJ Nets er nú í Rússlandi að spila.

Nets hafa enn rétt á að jafna tilboðið í hann og kemur í ljós eftir viku hvernig þetta mál fer.

Hvað ertu gamall, væni?
Yi Jinlian, hinn kínverski, í liði NJ Nets, var kippt inn í sviðsljósið á dögunum þegar efasemdir fóru á stjá um að hann væri 21 árs eins og kemur fram á pappírunum. Kínverskt blað segir í umfjöllun sinni að hann sé í raun 24 ára og vísar í gögn frá gagnfræðaskóla leikmannsins sem segja að fæðingarár hans sé 1984 en ekki 1987 eins og haldið er fram.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir af slíku berast, en fyrr í þessum mánuði tilkynnti íþróttamálaráðuneyti Kína að grunur leiki á um að 36 leikmenn í atvinnumannadeildinni í Kína hafi breytt gögnum um fæðingarár sitt.

Walker gengur sinn veg

Framherjinn Antoine Walker og Memphis Grizzlies hafa komist að samkomulagi um að skilja að skiptum og getur Walker nú gengið til liðs við hvaða lið sem getur nýtt hans starfskrafta.

Walker, sem átti frábæran feril framan af, hefur dalað all verulega síðustu ár og var orðinn lítið annað en varaskeifa þó hann hafi vissulega átt sinn þátt í meistaratitli Miami Heat árið 2006. Walker, sem er einn af atkvæðamestu 3ja stiga skyttum NBA deildarinnar frá upphafi, kom til Memphis frá Minnesota í OJ Mayo-Kevin Love skiptunum, en lék ekki einn leik með Grizzlies.

Walker er 32ja ára og var valinn til Celtics árið 1996.

Hill á heimleið?

Grant Hill gæti verið á leið aftur til Orlando Magic ef eitthvað er að marka sögusagnir. Heyrst hefur að Magic vilji fá þennan 36 ára framherja, sem býr í Florida utan leiktímabilsins, og sé tilbúið að láta háskólahetjuna JJ Redick í skiptum. Reddick átti frábæran feril með Duke á sínum tíma en hefur ekki náð að sýna hvað í honum býr í NBA.

Heimildir: Sports Illustrated, NBA.com, Yahoo! Sports og fleiri.

Smellið hér til að skoða tölfræði ofnannefndra leikmanna og fleira athyglisvert úr sögunni.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -