Á heimasíðu Njarðvíkur hefur undanfarin ár verið hægt að lesa stórskemmtilega pistla eftir Jóhannes Albert Kristbjörnsson fyrrum leikmann UMFN og margfaldan meistara með liðinu. Karfan.is tók hús á Jóhannesi sem sjálfur hefði spáð Snæfell meistaratitlinum í Iceland Express deild karla þetta árið. Við ræddum við Jóa og fengum hann einnig til að rýna í leiki kvöldsins í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar.
KR spáð titlinum þetta tímabilið, getur þú tekið undir með þeim söng?
Ég er nægilega gamall og reyndur til að vera nokk sama hverjum er spáð hvað. Það kom mér verulega á óvart að „Raven“ litli (Hrafn Kristjánsson) skyldi sækja leikstjórnanda til USA í ljósi þess að núverandi leikstjórnandi skilar fínum tölum. Eins og einhver FB-vinur minn sagði nýlega „Pavel er kominn með þrefalda tvennu í hálfleik“. Persónulega hefði maður haldið að hann myndi ná sér í miðherja m.t.t. aldurs og meiðslagirni Fannarsins eða „tweener“ til að bjarga deginum utan af velli þegar BB er með frosna fingur svona eins og Tommy Johnson var á siðasta ári. Mín skoðun er sú að meistarar síðasta árs fái alltaf að njóta vafans ef ekki hafi komið til heildsölu á leikmönnum meistaranna milli tímabila. Það er ekkert sætara en að vera meistari aftur og aftur. Mögulega litu spámennirnir til þess að Hlynur og Siggi verða ekki til staðar þetta árið en að verða meistari er miklu meira en traust á 1-2 leikmönnum. Það er kennslustund í „ég get og við getum“ fyrir alla í félaginu og stundum heilu bæjarfélögunum, frá húsverðinum í íþróttahúsinu til skólastjórans í grunnskólanum. Ég hefði því spáð Hólmurum titlinum. Þá finnst mér Stjarnan aldrei hafa verið með breiðari hóp en deila má um hvort liðið hefur ekki verið að spila „ofar getu“ undir stjórn Teits síðustu tímabil. Hjá honum hafa útlendingar blómstrað sem ekki þóttu lengur nógu góður pappír hjá þeim liðum sem þeir komu til landsins til.
Ert þú búinn að ,,spotta" mögulegt spútniklið þetta tímabilið?
Tvímælalaust! Ég held að ÍR verði spútnikliðið en verð að viðurkenna að vanþekking setur strik í reikninginn hjá mér að þessu sinni. Ísjakamenn KFÍ eru því miður óþekkt stærð hjá mér og þeir gætu þurrkað slefið úr munnvikunum á mér varðandi möguleika Breiðhyltinga á þessari upphefð.
Finnst þér Suðurnesin hafa verið að slaka á Grettistakinu sem þau hafa haft í íslenskum körfuknattleik síðustu ár?
Mér lýst ekki á þróunina en held að við Suðurnesjamenn séum fórnarlömb eigin velgengni. Það hafa komið tímabil hjá Njarðvík, Keflavík og Grindavík þar sem ungu leikmennirnir hafa þurft 1-2 tímabil til að vaxa úr grasi en liðin hafa látið eftir freistingunni að sækja fleiri útlendinga í liðin í þeirri von að halda áfram að einoka titlana. Afleiðingin er sú að sumir þessara ungu leikmanna ná ekki að þroskast „í réttu umhverfi“ og bilið í „næstu kynslóð“ verður bara lengra. Ég ætla þó með þessu ekki að taka ábyrgðina af þessum ungu, efnilegu. Það er þeirra að axla byrðina með því að eyða fleiri klukkustundum í æfingasalnum, lyftingasalnum og skólastofunum en þeir sem á undan þeim komu. Þessir strákar verða ekki betri en gömlu meistaraliðin á því að fá sér að reykja í hálfleik eins og sumir mínir bestu félaga komust upp með að gera í gamla daga.
Hvaða leikmenn sérð þú láta til sín taka í vetur?
Ég veðja á syni gamalla andstæðinga í þessum málum en leikstíll þeirra allra er mjög ólíkur feðranna. Pavel Ermós gamla verður leikmaður í sérflokki hérlendis í vetur og eflaust er titilspáin honum að mestu að þakka. Þá eru tveir ungir leikmenn sem einkar skemmtilegt er að fylgjast með. Óli Óla úr Grindjánavík er strákur sem getur verið lykillinn að sigri síns liðs án þess að skora dúsu af stigum og Tommi Tomma Holton er eldibrandur sem einmitt getur unnið leiki með því að skora villt og galið. Fjölnisliðið er einmitt eitt skemmtilegasta liðið að fylgjast með og verður skeinuhætt í vetur undir stjórn heiðursmannsins Tomma Holton.
Hvað með þessa fyrstu umferð og leikina þrjá í kvöld, allt heimasigrar eða fáum við læti í kofana í kvöld?
KR – Stjarnan:
Miklar væntingar hjá báðum þessum liðum eiga eftir að setja svip á leikgæðin í kvöld. Þetta snýst eiginlega um varnarleik KR. Stjörnuliðið er meira sett saman til að skora en verjast og ef KR-ingum tekst að gera þetta að varnarbaráttu þá vinna þeir en ef nýi leikstjórnandi nær ekki að leysa dulkóðaðan „herky-jerky“ leik Shouse þá setur „sá sæti“ bunka af þristum í smettið á honum og Garðbæingar stela sigrinum.
Keflavík – ÍR:
Ef ÍR-ingar ætla sér að gára vatnið í valdapýramída úrvalsdeildarinnar þá verða þeir að byrja að busla strax. Ég held að þeir geti alveg sótt stigin til Keflavikur í kvöld og er í raun ekki jákvæður gagnvart því að Suðurnesjaliðunum gangi vel að verja heimavelli sína þetta árið. Nái ÍR-kaninn, Kelly Beidler, að gera Sigga Þorsteins að eftirþanka í sóknarleik Keflvíkinga þá vinna Breiðhyltingar auðveldlega.
KFÍ – Tindastóll:
Vá, þekki ég nokkurn leikmann í þessum liðum? Sauðkrækingar með fullt af nýjum leikmönnum í mikilvægum hlutverkum og sama á við um lið Ísfirðinga. Get ómögulega spáð um þessi úrslit en hlakka til að fá að berja þessi lið augum, þegar þau koma í heimsókn á Suðurnesin.
Við minnum á að fyrsta umferðin í Iceland Express deild karla hefst í kvöld kl. 19:15.