spot_img
HomeFréttirJohn Rhodes glímir við krabbamein

John Rhodes glímir við krabbamein

John Rhodes, sem lék lengi vel með Haukum og ÍR hér á Íslandi á tíunda áratugnum, hefur greinst með krabbamein. Rhodes, sem nú er aðstoðarþjálfari Duquesne háskólans í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum, átti að hefja meðferð við veikindum sínum í síðustu viku en í ofan á lagt var svo ekið á hann þegar liðið var í keppnisferð í Philadelphia.
 
Rhodes fótbrotnaði við áreksturinn og brákaði einnig hálsliði. Hann hefur gengist undir uppskurði en er nú kominn af gjörgæslu.
 
Jim Ferry, aðalþjálfari Duquesne háskólans, segir hug sinn og allra sem að liðinu koma, með Rhodes á þessum erfiðu tímum.  ”Við vitum öll að Big John er einn jákvæðasti maður sem til er svo hann mun komast yfir þetta,” sagði hann á blaðamannafundi um daginn.
 
Rhodes spilaði 5 ár í efstu deild hér á Íslandi og var með 20,4 stig að meðaltali í leik og 18,8 fráköst. Hann tók á þessum 5 árum 2.574 fráköst en því til samanburðar er það aðeins 686 fráköstum færra en Guðmundur Bragason tók á sínum 15 árum í efstu deild, án þess að lítið sé gert úr mögnuðum frákastatölum Guðmundar. 
 
Með Haukum skoraði hann 23,5 stig í leik og tók 18,3 fráköst en þegar hann tók við sem spilandi þjálfari ÍR haustið 1994 fór fókusinn hjá honum að vera meira á vörn og fráköst. Með ÍR skoraði hann þó 16,9 stig og tók 19,3 fráköst í leik! Byrjað var að skrá varin skot haustið 1994 og á þeim tveimur árum sem hann spilaði með ÍR varði hann 2,58 skot í leik og stal 2,30 boltum.
 
Hann tók mest 31 frákast gegn Breiðabliki í nóvember 1995 og mest 15 sóknarfráköst einnig gegn Breiðabliki mánuði síðar. Hann varði mest 9 skot í einum leik gegn Þór Akureyri í febrúar 1996.
 
Magnaður leikmaður sem gaman var að horfa á og smitaði út frá sér leikgleði og baráttuvilja til þeirra sem með honum léku.
 
Við á Karfan.is sendum John okkar bestu batakveðjur en við vitum að hann blokkar þenna krabba eins og allt annað sem nálægt honum kom þegar hann spilaði körfubolta hér á Fróni.
 
 
Mynd:  John Rhodes treður með tilþrifum í Stjörnuleiknum 1995. (DV / Brynjar Gauti, tekið af Timarit.is)
Fréttir
- Auglýsing -