11:00
{mosimage}
(Jóhannes Árnason)
Svart og hvítt blóð rennur um æðar Jóhannesar Árnasonar þjálfara KR en hann er fæddur og uppalinn KR-ingur og hefur á aðeins þremur árum gert KR að einu sterkasta liði landsins en Jóhannes tók við þeim í 1. deild. Jóhannes á vön á jöfnum spennuleik í dag og segir bæði lið hafa mikla reynslu af því að búa sig undir svona stórleiki.
Þið lögðuð Keflavík í síðasta deildarleik liðanna, hjálpar það fyrir bikarúrslitaleikinn?
Nei ég held að það breyti engu, það voru fullt af atriðum í þeim leik sem við vorum að reyna að framkvæma en tókst ekki. Síðan gekk margt upp hjá okkur en í leiknum í dag verðum við að reyna að fjölga þeim atriðum sem við leggjum upp með og Keflavík er með frábært lið og vita nokkurnveginn hvað við ætlum að gera á móti þeim og sömuleiðis vitum við hvað þær eru að fara að gera. Þetta er því svona spurning um framkvæmd og réttan undirbúning.
Síðustu bikarúrslitaleikir í kvennaflokki hafa verið æsispennandi. Eigum við ekki von á öðru eins í dag?
Ég á ekki von á öðru en að þetta verði jafn leikur frá byrjun til enda. Þetta verða þessi litlu atriði sem skipta máli, við fáum klassískan bikarúrslitaleik hjá tveimur liðum sem hafa undanfarið leikið stórleiki.
Áttu von á því að liðin hleypi ekki hverju öðru langt fram úr hinu?
Ég myndi segja að það væri ólíklegt að annað liðið verði það vel stemmt að það rúlli yfir hitt liðið. Bæði lið hafa mikla reynslu í því að undirbúa sig fyrir svona leiki og ef bæði lið mæta tilbúin þá verður þetta jafn leikur.
KR lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Keflavík í fyrra. Þá mættust liðin í úrslitum Poweradebikarsins í haust og nú mætast liðin í bikarúrslitum. Þetta er nokkuð athyglisverður árangur á stuttum þjálfaraferli þínum í efstu deild!
Já, ég tók við þessu liði fyrir þremur árum síðan og þá var allt í molum svo ég ákvað að búa til sama prógramm og ég hafði alist upp við í KR. Ég kann það prógramm fram og til baka og þeir sem eru í kringum mig þekkja það út og inn. Við höfum verið að kenna stelpunum á svona okkar áherslur og það hefur gefist vel og þegar allir innan klúbbsins leggjast á það að láta prógrammið ganga þá gerast svona hlutir. Þá er maður kominn með lið sem er í titilbaráttu, þegar þú ert með gott prógramm í gangi þá færðu bæði leikmenn til liðs við félagið sem vilja ná langt sem og fólk inn í umgjörðina. Það er bara gott fyrir alla aðila.
Subwaybikarúrslit
Keflavík-KR
Kl. 14:00 í Laugardalshöll