spot_img
HomeFréttirJóhannes: Ætlum að koma í veg fyrir að Keflavík rassskelli okkur

Jóhannes: Ætlum að koma í veg fyrir að Keflavík rassskelli okkur

07:15
{mosimage}

(Stjórnandinn! Jóhannes gefur sínum leikmönnum fyrirskipanir af hliðarlínunni í gær) 

Hann var brosmildur og kátur í leikslok þjálfari nýliða KR sem í gærkvöldi tryggðu sig í úrslit Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik með 83-69 sigri á Grindavík í oddaleik sem fram fór í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Jóhannes Árnason er þjálfari KR og sagði í samtali við Karfan.is að enginn hefði gert ráð fyrir þessari niðurstöðu í upphafi tímabils. Það verða því KR og Keflavík sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn þetta árið og hefst einvígið þeirra í Toyotahöllinni í Keflavík á laugardag. 

,,Það gerði enginn ráð fyrir þessu, ekki nokkur einasti maður. Það er skondið núna að hugsa til baka þegar við vorum að gera t.d. leikmannasamninginn við Monique Martin. Þá ræddum við bónusgreiðslu ef við skyldum komast í úrslitin og menn djókuðu með það að það skipti engu máli hvaða tölur við myndum setja þar inn í samninginn því við færum örugglega ekki svona langt í keppninni,” sagði Jóhannes sæll í leikslok. 

,,Stelpurnar komu snemma saman í haust og voru fúsar til þess að leggja á sig mikla vinnu og gera þá hluti sem við Óli (aðstoðarþjálfari KR) lögðum fyrir þær. Með þessu náðum við að skapa góða liðsheild sem tekur lið eins og Grindavík og klárar það í svona einvígi. Grindavík er með tvo erlenda leikmenn, unglingalandsliðsmenn úti um allt en hugarfar minna leikmanna var þannig að þær vildu allt gera til að framkvæma þá hluti sem við Óli lögðum fyrir og spila sem lið. Vera ekki í einstaklingsframtakinu heldur héldu þær skipulagi og það skilaði sér að lokum,” sagði Jóhannes en hafa undanfarnir leikir ekki verið góð áskorun fyrir þjálfarateymi KR? 

,,Ég átti ekki von á því að komast í 2-0 gegn Grindavík og við vorum kannski of vör um okkur í þriðja leiknum og hugsuðum að við mættum nú ekki klúðra því að vinna Grindavík 3-0. Siðan fórum við til Grindavíkur í fjórða leikinn og þar fannst okkur hreint rán vera á ferðinni og eftir þann leik höfðum við spilað fimm sinnum í röð gegn Grindavík. Fyrir þennan oddaleik fengu stelpurnar frí á páskadag og komu svo í leikinn og vissu vel hvað þær þyrftu að gera og gerðu það vel,” sagði Jóhannes en KR landaði á dögunum sínum fyrsta sigri á Suðurnesjum þetta árið er þær höfðu sigur í Röstinni í öðrum leiknum gegn Grindavík. Er þá ekki annar sigur á Suðurnesjum væntanlegur? 

,,Það er alveg ljóst að ef við ætlum að verða Íslandsmeistarar verðum við að vinna einn leik í Keflavík og það verður okkar stærsta áskorun hingað til að reyna að stela sigri þar,” sagði Jóhannes og lýgur þar engu um enda Keflvíkingar ósigraðir á heimavelli þessa leiktíðina.  

Getur aðalþjálfarinn ekki nýtt sér það að aðstoðarþjálfarinn Óli Ásgeir Hermannsson sé borinn og barnfæddur Keflvíkingur?,,Óli kemur úr ,,Mekka” eins og hann orðaði það og það er ágætt að hafa einn fyrrverandi heimamann verðandi andstæðinga okkar í sínum röðum því móttökurnar í Keflavík eru jafnan ekki blíðar. Við ætlum okkur að standa eitthvað í Keflavík og reyna að koma í veg fyrir að þær rassskelli okkur,” sagði Jóhannes. 

Karfan.is lét aðstoðarþjálfarann sér ekki úr greipum renna og innti Óla Ásgeir eftir því hvort komandi einvígi við Keflavík yrði ekki tilfinningaþrungið fyrir hann: ,,Það verður bara skemmtilegt að mæta Keflavík, þetta verður bara gaman. Þetta verður ekkert tilfinningaþrungið en óneitanlega verður þetta öðruvísi,” sagði Óli í gegnum brosið eftir sigurinn á Grindavík í gærkvöldi. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -