spot_img
HomeBikarkeppniJóhann Þór um brotthvarf Jóns Axels frá Grindavík "Óska honum alls hins...

Jóhann Þór um brotthvarf Jóns Axels frá Grindavík “Óska honum alls hins besta”

Grindavík lagði Ármann í kvöld í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar, 109-101. Grindavík verður því eitt þeirra átta liða sem verður í pottinum þegar dregið verður á meðan að Ármann getur einbeitt sér að fyrstu deildinni.

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga var nokkuð sáttur eftir leik, en hann leyfði ungum leikmönnum liðsins að spila meira en þeir fá vanalega að gera.

“Ég er auðvitað ánægður með að hafa klárað leikinn og komast í næstu umferð; þetta snýst um það. Ég er heilt yfir sáttur og fékk að sjá flotta hluti frá ungu strákunum, en leikurinn var nokkuð sveiflukenndur hvað varðar spilamennskuna hjá okkur; við vorum mjög góðir fyrstu fimm mínúturnar í síðari hálfleik, en annars vantaði aðeins upp á liðsbraginn, en svona vill þetta oft verða. Þetta var mjög grindvísk frammistaða – sveiflur og misjöfn spilamennska en flott tilþrif inn á milli. Eitthvað sem við viljum jafnvægisstilla og ætlum okkur að gera.”

Þú fékkst flotta frammistöðu frá Braga og nokkrum öðrum ungum og efnilegum leikmönnum, og það hljóta að vera góð tíðindi?

“Já, alveg klárlega. Bragi var flottur í þessum leik og svo voru nokkrir leikmenn sem fengu eldskírn sína í leiknum og ég get ekki kvartað mikið undan frammistöðu þeirra.”

Núna er Jón Axel að fara, ertu kominn með eitthvað plan varðandi næstu skref, til dæmis varðandi það að styrkja hópinn?

“Það munar ansi mikið um gæðaleikmann eins og Jón Axel, en svona er þetta. Ég óska honum alls hins besta og vona að hann haldi áfram að vaxa og dafna sem einn besti leikmaður Íslands í dag. En hvað næstu skref varðar þá mun það væntanlega koma í ljós fljótlega; eftir leikinn gegn Njarðvík á föstudaginn kemur landsleikjahlé, og eftir það hlé mun það væntanlega skýrast hvað við gerum í leikmannamálum. Við viljum vera í toppbaráttu og það er stefnan klárlega – en betra að flýta sér hægt og vanda valið. En ef það kemur í ljós að það sem við höfum beint fyrir framan nefið á okkur er nógu gott þá notum við það bara að sjálfsögðu, og óþarfi að vera að sækja eitthvað út fyrir landsteinana ef sú er raunin. Annars kemur líklega eitthvað í ljós með leikmannahópinn á föstudaginn, en ég get þó ekki lofað því.” 

Fréttir
- Auglýsing -