13:30
{mosimage}
(Jóhann Árni var einn besti maður vallarins í gær)
Proveo Merlins unnu mikilvægan útisigur í gærkvöldi gegn Braunschweig í þýsku Pro B deildinni. Lokatölur leiksins voru 74-81 Merlins í vil þar sem Jóhann Árni Ólafsson gerði 18 stig og var í byrjunarliði Merlins þrátt fyrir að hafa ekki verið með liðinu við æfingar frá þarsíðustu helgi. Jóhann kom heim í vikunni til að ráða bót á langvarandi meiðslum sem hafa verið að hrjá hann og ljóst að á Íslandi hefur hann fengið hina bestu meðferð.
Merlins og Braunschweig voru jöfn fyrir leikinn í gær, bæði í 2. sæti deildarinnar ásamt tveimur öðrum liðum með fimm sigra og tvo tapleiki. Rhöndorf leiðir enn deildina en liðið er ósigrað með átta sigurleiki.
Jóhann var stigahæstur Merlinsmanna í gær með 18 stig á rétt rúmum 25 mínútum. Hann var einnig með 5 stoðsendingar og 3 fráköst og fékk 20 í framlagseinkunn sem var hæsta einkunn leiksins.