spot_img
HomeFréttirJóhann kom heim í stutt ,,verkstæðisstopp?

Jóhann kom heim í stutt ,,verkstæðisstopp?

12:00
{mosimage}

(Jóhann Árni var í stuttu stoppi hér heima til að láta ,,tjasla" upp á sig)

Jóhann Árni Ólafsson hefur síðustu daga verið staddur hér heima á Íslandi til að ráða bót á meiðslum sem hafa angrað hann síðan sumarið 2006 en Jóhann leikur með Proveo Merlins í þýsku Pro B deildinni. Karfan.is náði tali af Jóhanni áður en hann hélt aftur út til Þýskalands en hann fór út í morgun og leikur með liði sínu á laugardag gegn Hertener Löwen en þessi tvö lið og Munchen deila saman 2. sætinu í deildinni og því um stórleik að ræða.

,,Það er fólk hér heima sem hefur gott lag á þessum meiðslum mínum,“ sagði Jóhann sem eftir töluvert fundahald ytra fékk að fara heim til Íslands og fá meina sinna bót. Læknar og sjúkraþjálfarar Merlins klóruðu sér í hausnum yfir meiðslum Jóhanns en þau lýsa sér þannig að leikmaðurinn fær bólgur í bak sem enda með því að toga illa í annan nára hans. Jóhann náði að sannfæra forsvarsmenn Merlin um Íslandsferðina sem tók enda í morgun og er Jóhann nú á leið sinni aftur til Þýskalands.

Jóhann hefur farið mikinn með Merlins í upphafi tímabils og sagði við Karfan.is að hann fengi mikið frelsi innan liðsins og að nú léki hann við aðrar kröfur og meiri ábyrgð en áður. ,,Nú er maður einn af útlendingunum í liðinu svo ef maður stendur sig ekki þá er maður bara sendur heim,“ sagði Jóhann léttur í bragði en væntanlega er mikil ánægja með hans störf fyrir félagið enda er Jóhann sextándi stigahæsti leikmaður deildarinnar. Jóhann er með 17,1 stig að meðaltali í leik en félagi hans John Griffin er stigahæsti leikmaður deildarinnar með 24,7 stig að meðaltali í leik.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -