spot_img
HomeFréttirJóhann í gult á næstu leiktíð: Fannst Grindavík standa upp úr

Jóhann í gult á næstu leiktíð: Fannst Grindavík standa upp úr

 
Þeir Jóhann Árni Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson sömdu í gærkvöldi við Grindavík og leika því í gulu í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð. Sigurður kemur úr röðum Keflavíkur og Jóhann úr röðum Njarðvíkinga. Karfan.is náði tali af Jóhanni í morgun en kappinn leggur aldrei af stað inn í Íslandsmótið nema ætla sér titilinn.
Jóhann og unnusta hans Petrúnella Skúladóttir munu leika með Grindavíkurliðunum á næstu leiktíð en enn á eftir að ganga frá samningum við Petrúnellu.
 
,,Mér fannst Grindavík eina liðið sem var virkilega að bæta við sig og hef mikinn áhuga á því að taka þátt í þessu með þeim,“ sagði Jóhann í samtali við Karfan.is en hann var einnig í viðræðum við fleiri klúbba áður en hann ákvað að halda til Grindavíkur.
 
,,Ég heyrði í nokkrum liðum og mér fannst Grindavík standa upp úr, þetta er heimabær konunnar minnar og við flytjum þarna saman með litla strákinn okkar,“ sagði Jóhann en saman eignuðust hann og Petrúnella nýverið sitt fyrsta barn.
 
Formaður KKD Grindavíkur gaf það afdráttarlaust út í morgun hjá Fréttablaðinu að félagið ætlaði sér titilinn á næstu leiktíð. ,,Það ætla ég að vona enda hef ég lagt svoleiðis af stað inn í Íslandsmót síðan ég var 11 ára, markmiðið hefur náðst í öll skiptin nema þrjú,“ sagði Jóhann en það var ekki auðvelt fyrir hann að segja skilið við uppeldisfélagið Njarðvík.
 
,,Það er mjög erfitt að yfirgefa uppeldisklúbbinn, ég er búinn að vera í Njarðvík síðan ég var 5 ára og nú leikur maður gegn liðinu í fyrsta sinn. Ég efast ekki um að tilfinningarnar verða blendnar enda þykir mér vænt um klúbinn og verður örugglega skrýtið að leika gegn honum.“
 
Þeir Friðrik Ragnarsson og Einar Árni Jóhannsson hafa því frá lokum síðustu leiktíðar séð á eftir Páli Kristinssyni og Friðriki Stefánssyni sem eru hættir, Guðmundur Jónsson farinn í Þór í Þorlákshöfn og Jóhann Árni sem nú er búinn að semja við Grindavík. Þá er ekki loku fyrir það skotið að fleiri leikmenn muni fara frá klúbbnum.
 
Fréttir
- Auglýsing -