spot_img
HomeFréttirJóhann: Allt á réttri leið en erum fjarri því að toppa

Jóhann: Allt á réttri leið en erum fjarri því að toppa

 
Grindvíkingar tróna nú á toppi Iceland Express deildar karla eftir þrjá sigra í jafn mörgum leikjum. ÍR varð í kvöld nýjasta fórnarlamb Helga Jónasar og liðsmanna sem fengið hafa vegleg framlög úr öllum áttum í upphafi móts. Karfan.is náði í skottið á Jóhanni Árna Ólafssyni leikmanni Grindavíkur eftir sigurinn á ÍR í kvöld og við inntum hann eftir því hvort mönnum væri kippt á bekkinn þegar þeir væru komnir yfir tíu stiga múrinn.
,,Þetta er ótrúlegt hvernig stigaskorið dreifist hjá okkur, það er reyndar bara mjög jákvætt og við spilum svona bolta, flæðið er gott og allir eru ógnandi þannig að við höldum andstæðingum okkar vel á tánum,“ sagði Jóhann sem gerði 7 stig í kvöld og í dag á grindvískan mælikvarða þýðir það að vera full rausnarlegur.
 
Eftir frekar brösótt undirbúningstímabil telur Jóhann þá að Grindavíkurdísellinn sé byrjaður að mjatla? ,,Við erum að taka öll réttu skrefin, við vorum án erlendra leikmanna á undirbúningstímabilinu og þá voru Páll Axel og Þorleifur ekkert með. Liðið er að hlaupa ný kerfi í sókninni svo menn voru að læra þetta en allt er á réttri leið en við erum fjarri því að toppa núna og eigum langt í land.“
 
Jóhann var sérstaklega ánægður með varnarleikinn hjá gulum í kvöld:
,,Við spiluðum frábæra vörn fyrstu þrjá leikhlutana og í lok þriðja og upphafi fjórða fóru skotin okkar að detta og þá var þetta bara búið. Þessi leikur var ekki ósvipaður fyrstu tveimur leikjunum, þessi þrjú lið saxa niður forskotið okkar á lokasprettinum. Við höfum verið að stinga af í þriðja leikhluta en þetta hafa ekki verið neinar slátranir.“
 
Mynd/ www.vf.is  
 
Fréttir
- Auglýsing -