spot_img
HomeFréttirJerry West er látinn

Jerry West er látinn

NBA goðsögnin Jerry West er látinn, 86 ára að aldri. Þetta staðfesti lið Los Angeles Clippers í dag, en West starfaði sem stjórnarmaður hjá liðinu á dánardegi.

Óhætt er að segja að fáir leikmenn hafi haft jafnmikil áhrif á NBA deildina og Jerry West, en til dæmis er merki deildarinnar teiknað eftir West. Hann lék fyrir West Virginia Mountaineers í NCAA háskólaboltanum áður en hann gekk til liðs við Los Angeles Lakers í NBA deildinni árið 1960, þar sem hann lék allan sinn fjórtán ára feril. Á ferli West komust Lakers alls níu sinnum í lokaúrslit NBA deildarinnar, en í átta skipti þurftu hinir gylltklæddu að játa sig sigraða, sex sinnum gegn Boston Celtics og tvisvar gegn New York Knicks. Af þessum átta töpum Lakers í úrslitum komu fjögur í oddaleik, og þar af þrisvar með þremur stigum eða minna. Jerry West varð meðal annars fyrsti, og hingað til eini maðurinn til að vera útnefndur besti leikmaður lokaúrslita NBA deildarinnar sem kemur úr tapliði úrslitanna, þegar Lakers töpuðu fyrir Boston árið 1969 í oddaleik. Eini NBA titill West sem leikmaður kom árið 1972, þegar liðið vann 69 leiki í deildarkeppni, sem þá var met, og þar af 33 leiki í röð, sem enn er met.

Eftir leikmannaferilinn tók West við sem þjálfari Lakers, þar sem hann starfaði til ársins 1979, þegar hann gerðist framkvæmdastjóri liðsins. Lakers urðu öllu sigursælli með West í stöðu framkvæmdastjóra, og unnu NBA titilinn í sex skipti með West í brúnni. Fyrir utan tíma sinn hjá Lakers starfaði West einnig fyrir Memphis Grizzlies og Golden State Warriors, en Warriors unnu tvo NBA titla undir forystu West árin 2015 og 2017.

Fréttir
- Auglýsing -