17:00
{mosimage}
(Jason í einu af sínum skæðu gegnumbrotum)
,,Þetta er nákvæmlega það sem ég kom til að gera og ég gæti ekki verið ánægðari. Við náðum okkar markmiði þrátt fyrir að hafa verið 2-1 undir í einvíginu og karakterinn í þessu KR liði er ótrúlegur og ég er hæstánægður með þetta,“ sagði Jason Dourisseau leikmaður Íslandsmeistara KR í samtali við Karfan.is í gærkvöldi þegar Vesturbæingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. Jason hefur farið mikinn með KR í vetur og glatt áhorfendur með glæstum tilþrifum en kappinn er mikill háloftafugl og lék Grindvíkinga oft grátt í úrslitaseríunni.
,,Ég hafði alla mína trú á því að okkur myndi takast að stoppa Grindavík í þeirra síðustu sókn og það tókst. Vörnin hefur verið okkar lykilþáttur alla leiktíðina og það var vörnin okkar sem vann Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Jason en verður hann í leikmannahópi KR á næstu leiktíð?
,,Ég veit lítið um þau mál núna en næstu daga verður bara fagnað og svo verða þessi mál skoðuð,“ sagði Jason Dourisseau, Bandaríkjamaðurinn í Íslandsmeistaraliði KR.