Jason Dourisseau fyrrum leikmaður KR var valinn mikilvægasti leikmaður hollensku deildarinnar fyrir tímabilið 2010-11. Eins og flestir muna fór Jason fyrir vel mönnuðu liði KR þegar það vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2009 í eftirminnilegri úrslitarimmu við Grindavík. Jason átti gott tímabil með liði sínu, GasTerra Flames í Groningen í Hollandi í ár. Hann skoraði að meðaltali 11 stig, hirti tæp 5 fráköst, stal 2 boltum og gaf 2 stoðsendingar á leik á tímabilinu. Það sem er þó kannski mesta afrekið að á þeim 30 mínútum sem hann spilaði að meðaltali hitti hann úr 59% skota sinna allt tímabilið og er hann því með bestu nýtinguna í hollensku deildinni í ár, sem verður að teljast ansi vel að verki staðið.
Jason var einnig valinn í stjörnulið deildarinnar ásamt liðsfélögum sínum Julien Mills og Matt Haryasz. Frank Turner úr Den Bosch og Seamus Boxley úr toppliðinu Leidin voru einnig valdir í liðið.
GasTerra Flames endaði í öðru sæti í deildinni í ár og hefur nú úrslitakeppnina gegn BSW Weer sem endaði í 7. sæti deildarinnar. Lið Jasons tapaði seinasta leik tímabilsins gegn Leeuwarden, en sigur í þeim leik hefði jafnað efsta lið deildarinnar að stigum. Þeir mæta því líklega af fullum krafti inní úrslitakeppnina sem hefst í dag, laugardaginn 23. apríl.
Forvitnir geta fylgst með gangi mála á http://www.basketballleague.nl/ og mælum við með google translate fyrir þá sem ekki eru sleipir í hollenskunni.
Mynd/ KR.is – Jason ásamt konu sinni, syni og móður.
Gísli Ólafsson