spot_img
HomeFréttirJana stigahæst í Njarðvíkursigri gegn Fjölni

Jana stigahæst í Njarðvíkursigri gegn Fjölni

Njarðvík landaði nokkuð öruggum sigri gegn Fjölni í kvöld 85-74 í Subway-deild kvenna. Fjölniskonur áttu nokkrar fínar rispur með Laneiro og Korinne í aðalhlutverkum en Jana Falsdóttir stýrði Njarðvíkurkonum af festu í kvöld og leiddi liðið áfram til sigurs.

Selena Lott lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld en hún var nýverið ráðin til félagsins í stað Tynice Martin sem sagði skilið við félagið í jólafríinu. Selena komst vel frá sínu fyrsta verkefni hérlendis með 15 stig og 6 fráköst.

Njarðvíkingar voru beittari í fyrsta leikhluta. Leiddu 23-17 að honum loknum þar sem Ena Viso var með 9 stig en Raquel Laneiro 8 í liði Fjölnis og var að finna sig vel í upphafi leiks á gamla heimavellinum í Njarðvík.

Í öðrum leikhluta voru Njarðvíkingar áfram feti framar. Jana Falsdóttir tók nokkrar landsliðsrispur í leikhlutanum og var með 10 stig í hálfleik. Njarðvík leiddi 45-34 þegar liðin gegnu til búningsklefa og virtust vera nokkuð þægilega við stýrið á leiknum.

Ena Viso var með 11 stig og Jana 10 í hálfleik hjá Njarðvík en Fjölnismegin var Raquel Laneiro að bera sóknarleikinn uppi með 15 stig.

Fjölni óx ásmegin í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í 55-48 eftir þrist frá Laneiro. Njarðvíkurkonur röltu þó aftur naumlega yfir 10 stiga múrinn og leiddu 65-54 að loknum þriðja leikhluta.

Í fjórða leikhluta hélt Njarðvík áfram vel á spilunum og héldu Fjölni í hæfilegri fjarlægð. Laneiro og Korinne voru farnar að mæðast lítið eitt en Fjölni vantaði fjölbreyttara framlag í sókninni og því lentu stigin tvö Njarðvíkurmegin 85-74.

Tölfræði leiks

Gangur leiksins:

7-7, 23-17

36-24, 45-34

55-45, 65-54

77-61,85-74

Fréttir
- Auglýsing -